10.08.1931
Efri deild: 25. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 22 í C-deild Alþingistíðinda. (1847)

15. mál, forkaupsréttur kaupstaða á hafnarmannvirkjum o.fl.

Pétur Magnússon:

Ég hafði ekki ætlað mér að flytja brtt. við þetta frv., því eins og ég skýrði frá í nál. og við 2. umr., þá er ég mótfallinn frv. í heild. En þar sem frv. var samþ. hér við 2. umr. og mér þykja jafnvel líkur á, að það verði að lögum á þessu þingi, þá þótti mér ráðlegra að bera fram þessar brtt. við frv., áður en það yrði samþ. til hv. Nd.

Tvær af brtt. þessum eru ekki annað en skýringar. Fyrri liður 1. gr. frv. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Heimilt er bæjarstj. í kaupstað að gera samþykkt um það að áskilja bæjarfélagi forkaupsrétt á hafnarmannvirkjum, lóðum þeim, er að sjó liggja, og á lóðum og löndum innan lögsagnarumdæmisins, svo og öðrum fasteignum, er bæjarstj. telur nauðsyn að tryggja bæjarfélaginu forkaupsrétt á“.

Það mætti leggja þann skilning í þetta orðalag, að bæjarstj. væri heimilt að gera samþykkt um að áskilja bænum forkaupsrétt á fasteignum utan lögsagnarumdæmisins. Vitanlega er þetta ekki tilgangur frv. og hefir ekki vakað fyrir hv. flm., heldur er þetta aðeins klaufalegt orðalag, enda næði það ekki nokkurri átt, að t. d. Hafnarfjarðarkaupstaður gæti tryggt sér forkaupsrétt á fasteignum í Reykjavík. Sama máli gegnir um síðari lið 1. gr., um hreppsfélögin, og ber ég því fram samskonar brtt. við þann lið.

Aftur á móti er þriðja brtt. efnisbreyting. Álít ég hana sjálfsagða, því að annars gæti farið svo, að hvorki seljandi né kaupandi vissu um kvaðir þær, sem á eigninni hvíldu, fyrr en kaup væru um garð gengin. Er það ákaflega harðneskjulegt gagnvart kaupanda, sem hefir eignazt eignina í góðri trú og án þess að vita um kvöðina, sem á henni hvíldi. Ég vona því, að hv. dm. fallist á þessar brtt. En þó að þær nái fram að ganga, þá greiði ég samt atkv. á móti frv. í heild eftir sem áður.