06.08.1931
Neðri deild: 22. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 323 í B-deild Alþingistíðinda. (185)

1. mál, fjárlög 1932

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Ég ætla nú ekki, úr því að sá háttur hefir verið upp tekinn að láta niður falla eldhúsdag, að hefja neinar slíkar umr. að þessu sinni. En okkur sjálfstæðismönnum fer að verða vandlifað Í vor mátti Framsóknarflokkurinn ekki ógrátandi á það minnast, að við værum búnir að taka ektamakann frá þeim. Og nú ráðast sócíalistar á okkur fyrir að við séum komnir í hvílu með Framsókn.

Það er ekki óskemmtilegt, þetta hreinlætisorð, sem við erum að fá á okkur. Og hvað sem hæft kann að vera í mökunum við sócíalista, — og dálítið er nú til í því! — þá er ekkert hæft í hinu, að við séum að skríða upp í flatsængina með Framsókn.

Út af „samningum“, sem hv. 3. þm. Reykv. talaði um, þá get ég skýrt frá því, að sjálfstæðismenn í Ed. samþ. verðtollinn sem tekjustofn, sem við stefnulega höfum alltaf verið samþykkir. En við skildum það samt til, áður en við gengum inn á að endurnýja þenna tekjustofn ríkisins, að Framsóknarfl. gæfi loforð um það, að mþn. í kjördæmaskipunarmálinu, — þ. e. a. s. málinu, sem við vorum að berjast um í vor, og jafnaðarmenn og við höfum haft samtök um að vinna að, — væri skipuð með þeim hætti, sem við töldum sanngjarnan, að Sjálfstæðisfl. fengi tvo nefndarmenn, Framsóknarfl. tvo og Alþýðufl. einn. Auk þess lögðum við ríka áherzlu á það, að þessi n. skilaði áliti á næsta þingi, og það er líka tekið fram í nál., sem kom frá stjórnarskrárnefnd Ed.

Ég vil svo ljúka þessari aths. minni með því að láta í ljós þá von, að jafnaðarmenn láti nú duglega kné fylgja kviði í kjördæmaskipunarmálinu, hvað sem verður uppi á teningnum um sanngirni eða óbilgirni af hálfu þingmeirihl., og sýni í því einlægari viðleitni en ég hefi talið, að þeir vildu sýna málinu nú eins og sakir standa.