22.08.1931
Neðri deild: 36. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í C-deild Alþingistíðinda. (1867)

15. mál, forkaupsréttur kaupstaða á hafnarmannvirkjum o.fl.

Jón Ólafsson:

Já, það, sem hv. þm. Barð. verður að skilja, er, að með því að hafa ákvæðið fyrir 5 ára tímabilið er gefinn svo langur frestur, að ákvæðið hlýtur að verða til þess, að menn fara að renna augum til eigna, sem álitið er, að eigi að renna til kaupstaðanna. Það er með þessu verið að gefa mönnum meira svigrúm til brasks en þegar ákvörðun um þetta kemur með stuttum fyrirvara, eins og er þegar á að taka eignarnámi. (BJ: Það er ekkert 5 ára ákvæði í frv.). Jú, það er gefinn þar 5 ára frestur. Og hver maður, sem bara hefir heilbrigða hugsun, þó hann sé ekki kaupsýslumaður, hlýtur að sjá það, að fyrir þetta ákvæði hefir sá, sem á eignina, gefið tækifæri til að útvega nógu hátt tilboð í hana, því það stendur í 3. gr., að það skuli ráða endanlegu verði eignarinnar, ef það liggi fyrir ákveðið tilboð í hana. Ef þessi leið gefur ekki tilefni til brasks, þá veit ég ekki hvað það er, sem gefur það.