06.08.1931
Neðri deild: 22. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 325 í B-deild Alþingistíðinda. (187)

1. mál, fjárlög 1932

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Ég hélt, að hv. 3. þm. Reykv. væri ekki svo óskýr maður, að honum væri ekki ljóst, að eins og till. um skipun mþn. lá fyrir þinginu, áttu sjálfstæðismenn ekki völ nema á einum manni. Við erum 15 í þinginu, en framsóknarmenn 23. Okkar annar maður fengi því 71/2 atkv., en þeirra þriðji maður 72/3 úr atkv. Þeir fengju því 3 menn við kosninguna, við l, og stj. átti að skipa þann fimmta. Eftir þeirri breytingu, sem nú er á orðin, er ekki eingöngu það unnið, að við sjálfstæðismenn fáum tvo menn í staðinn fyrir einn, heldur er nú víst, að andstæðingar núv. stj. í kjördæmaskipunarmálinu hafa með þessu meiri hluta nefndarinnar. Og það er sannarlega veigamikið atriði.

Þá sagði hv. þm., að við hefðum svikið almennan vilja kjósenda um það að sýna framsóknarmönnum, að þótt þeir hefðu fengið meiri hl. þm., þá gætu þeir ekki fengið fé hjá þinginu. Þetta kalla ég nú brjóstheilindi hjá þessum hv. þm. En út í þetta skal ég ekki fara, að öðru leyti en því, að spyrja hann, hvort hann hefði verið reiðubúinn til þess að drepa önnur skattafrv., sem Framsóknarfl. hefði orðið neyddur til að bera fram, ef sjálfstæðismenn hefðu viljað skuldbinda sig til þess að drepa verðtollinn.

Ég skal taka það fram. að það er alveg gripið úr lausu lofti, ef hv. þm. heldur, að við sjálfstæðismenn höfum sett eitthvert skilyrði um að hv. þm. V.-Ísf. verði í þeirri stj., sem Framsóknarfl. ætlar að mynda. Við höfum engin slík skilyrði sett. Og það get ég sagt hv. þm., að úr Framsóknarfl. vil ég engan mann síður í stj. heldur en þenna þm., ef hinir ráðh. eiga að vera núv. forsrh. og fyrrv. dómsmrh., og það er af því, að ég get ósköp vel unnað hv. þm. V.-Ísf. þess, að leggja sig ekki í þann félagsskap.

Og að lokum þetta: Hv. 3. þm. Reykv. segir, að það sé ekki sjáanlegur munur á Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum. Ef svo er, þá skil ég vel, að hann elski sinn flokkinn hvorn daginn og að dagabrigði séu að því, hvorum hann fylgir.