27.07.1931
Efri deild: 13. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í C-deild Alþingistíðinda. (1875)

92. mál, kynsjúkdómavarnir

Flm. (Halldór Steinsson):

Þetta frv. var flutt á síðasta þingi, af sömu flm. og nú bera það fram. Það komst þá til 2. umr. og til n., en lengra komst það ekki vegna þingrofsins, eins og svo mörg önnur mál.

Samkv. l. nr. 16, 20. júní 1923, um varnir gegn kynsjúkdómum, er heimilað, að vissum sjúklingum sé veitt ókeypis læknishjálp, lyf og umbúðir, en reynslan hefir sýnt, að það er ekki nægilegt til þess að stemma stigu fyrir útbreiðslu kynsjúkdómanna. Því er það nauðsynlegt, að auk þess, að veitt sé ókeypis læknishjálp í heimahúsum, sé sjúklingum þeim, sem þess þurfa, tryggð vist í sjúkrahúsum. Það hefir sýnt sig í útlöndum, að veikinni verður ekki útrýmt með öðru móti. Heimilisástæður sjúklinga eru oft svo slæmar, að ekki er hægt að koma lækningu við af þeim sökum. Þar við bætist, að sumir sjúklingar eru svo kærulausir með sjúkdómana, að mikil smitunarhætta getur stafað af þeim, ef þeir eru á heimilunum.

Þessi breyt., sem hér er farið fram á, myndi ekki hafa mikinn aukinn kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð, þar sem ákveðið er, hvað sjúklingafjöldinn megi vera mestur. Yrði kostnaður því mjög lítill móts við gagn það, sem af þessu myndi leiða. Auk þess má gera ráð fyrir, að nokkrir sjúklingar myndu bera kostnaðinn sjálfir.

Eins og sést á grg. frv., hefir útbreiðsla kynsjúkdóma farið mjög í vöxt hér á síðustu árum. Tala lekandasjúklinga hefir nærri tvöfaldazt á 5 síðustu árum. Er hér um mjög alvarlegt og ískyggilegt mál að ræða. Þar sem sjúkdómar þessir eru komnir í algleyming, eru þeir með réttu taldir meðal hins stærsta böls hverrar þjóðar. Það er því komið svo, að þingið getur ekki látið mál þetta afskiptalaust lengur.

Það má ganga að því vísu, að með sama áframhaldi yrðu sjúkdómar þessir orðnir landlæg plága að 10–20 árum liðnum, og myndi þá kostnaður við að reyna að hefta útbreiðslu þeirra vera orðinn margfalt meiri en nú. Ég vona því, að hv. dm. skilji, hvílíkt alvöru- og nauðsynjamál þetta er, og hraði því svo afgreiðslu þess, að það geti orðið að l. á þessu þingi.

Að lokum vil ég leggja til, að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.