06.08.1931
Neðri deild: 22. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 326 í B-deild Alþingistíðinda. (188)

1. mál, fjárlög 1932

Magnús Guðmundsson:

Hæstv. forsrh. sagði, að ekki væri siður að hafa eldhúsdag á næsta þingi eftir kosningar. Það mun rétt vera, en það verður að taka tillit til þess, að nú stendur sérstaklega á, því að á vetrarþinginu var komið í veg fyrir það með harðdrægri stjórnarráðstöfun, að hafður yrði eldhúsdagur þá. Það væri því ekki svo sérlega undarlegt, þótt eldhúsdagur yrði tekinn upp nú, og myndi áreiðanlega hafa verið gert, ef ekki hefði farið svo, að 2/3 hlutar af þeirri stj., sem sat þegar þingið var rofið, væru nú farnir frá.

Um verðtollsafgr. skal ég segja hv. 3. þm. Reykv. það, að ekkert var undarlegt, þótt sjálfstæðismenn greiddu atkv. með því máli, því að þeir hafa alltaf verið með verðtolli. Þetta veit hv. þm. vel. Það var heldur ekkert undarlegt, þótt jafnaðarmenn greiddu atkv. móti málinu, því að þeir hafa alltaf verið á móti verðtolli. Hv. þm. getur ekki álasað Sjálfstæðisfl. fyrir það, þótt hann samþ. mál, sem hann hefir alltaf verið með.

Við álítum, að ekki sé rétt að nota þau meðöl, að neita flokki, sem hefir meiri hl. þings, um nauðsynlegar tekjur til þess að stjórna landinu, þar sem þessi sami flokkur hefir tekið þannig í það stórmál, sem barizt var um nú við kosningarna, kjördæmaskipunarmálið, að skipa nefnd í það, og lofa að láta koma nál. á næsta þingi, sem kemur saman eftir nokkra mánuði.

Verði brigð á því, getur vel skeð, að það teljist svo mikið brot, að þá sé réttmætt að grípa til þess örþrifaráðs, sem það alltaf er að neita stj. um þær tekjur, sem hún þarf til þess að geta fullnægt ákvæðum fjárl.