20.08.1931
Efri deild: 34. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í C-deild Alþingistíðinda. (1889)

92. mál, kynsjúkdómavarnir

Halldór Steinsson:

Ég er ekki ánægður með gerðir hv. n. í þessu máli, þar sem hún leggur nú til, að því verði vísað til hæstv. stj., eftir að það hefir lesið fyrir tveimur þingum, vetrarþinginu og þessu þingi. Það er því léleg ástæða, sem hv. frsm. ber fram, að málið sé ekki nægilega rannsakað. Ef svo er, þá liggur það í áhugaleysi hv. þdm. sjálfra fyrir málinu, og ekki í öðru.

Hv. frsm. sagði, að frv. hefði mikinn aukakostnað í för með sér. Þetta er ekki rétt. Eini aukakostnaðurinn samkv. frv. er sá, að ríkið kosti ekki færri en 10 sjúkrarúm fyrir þessa sjúklinga, og sá kostnaður getur aldrei orðið mikill. Það er því engin ástæða til þess að fresta afgreiðslu þessa máls. Hinsvegar er það knýjandi nauðsyn að gera nú þegar auknar ráðstafanir í þessum efnum, því að sjúkdómar þessir breiðast mjög ört út. Mér finnst það því fullkomið ábyrgðarleysi hjá hv. d., ef hún vill draga málið til næsta þings. Vil ég svo leggja til, að rökst. dagskráin verði felld, en frv. samþ.