20.07.1931
Neðri deild: 5. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1193 í B-deild Alþingistíðinda. (1890)

26. mál, hafnargerð á Akranesi

Flm. (Pétur Ottesen):

Þetta er eitt af þeim málum, sem dagaði uppi á síðasta þingi vegna þingrofsins. Á þinginu 1930 dagaði málið og uppi á síðustu stundu í Ed. Var það þá búið að ganga í gegnum Nd. og tvær umr. í Ed. Mér þykir því ekki nein ástæða að fara út í efni þessa frv., en vildi aðeins gera að minni till., að því verði vísað til sjútvn. Annars ætti naumast að vera nein þörf á því, þar sem það var svo nýlega afgr. frá n.; en ég vænti þess þá, að n. afgr. málið fljótlega, svo að af þeim sökum þurfi ekki að verða nein töf á afgr. þess.

Það er nú svo, að á Akranesi hefir verið ráðizt í þessa hafnargerð, án þess að nokkur 1. séu samþ. um þær framkvæmdir, og án nokkurs styrks frá hinu opinbera, og er þegar búið að verja til hafnargerðarinnar um 120 þús. kr. Það má því ekki dragast lengur, að lög séu sett um þetta, og jafnframt er þess að vænta, að þetta þing gangi þannig frá fjárl. næsta árs, að a. m. k. verði nú fé veitt móti því, sem búið er að leggja fram til verksins.