20.08.1931
Efri deild: 34. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í C-deild Alþingistíðinda. (1893)

92. mál, kynsjúkdómavarnir

Halldór Steinsson:

Ég þarf ekki að svara þessum hv. þm. miklu. — Hv. frsm. sagði, að það væri enginn sérstakur undirbúningur, þótt frv. hefði legið fyrir þingnefnd. Ég veit ekki betur en að mörg mál fái undirbúning sinn eingöngu í n. Og þar sem mál þetta hefir legið fyrir tveimur þingum, þá get ég ekki séð, að það þurfi að vera miður undirbúið en flest önnur mál. Nei, þetta er ekki ástæðan til þess, að n. leggur á móti málinu, heldur stafar það af því, að hún hefir ekki nægan skilning á því, sem í húfi er. Hv. frsm. er alltaf að stagast á kostnaði við þetta mál, sem er svo hverfandi lítill, að það er nærri því hlægilegt að heyra um hann talað, og allt eftir þessu.

Bæði hv. frsm. og hv. 4. landsk. sögðu, að ekki þýddi að afgreiða þetta frv. út úr d., því að það kæmist aldrei gegnum þingið. Þetta er ekki veigamikil afsökun. Séu hv. þm. sannfærðir um, að hér sé um gott og gagnlegt mál að ræða, því þá ekki að fylgja því eins langt og hægt er? Þetta er því engin ástæða til þess að svæfa málið, með því að kasta því í „drekkingarhylinn til hæstv. stj.“, eins og einn hv. þm. komst svo heppilega að orði í Nd. fyrir skömmu.