20.08.1931
Efri deild: 34. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í C-deild Alþingistíðinda. (1895)

92. mál, kynsjúkdómavarnir

Frsm. (Einar Árnason):

Hv. þm. Snæf. vildi halda því fram, að ekki myndi leiða mikinn kostnað af þessu frv. Ég get samt sem áður ekki séð annað en að kostnaðurinn af þessu frv. muni verða allmikill. Það er vandséð, hvort hægt verður að leggja til rúm í landsspítalanum fyrir marga sjúklinga, og yrði þá að reyna að útvega annað húsrúm fyrir þá. Þá væri og ekki úr vegi að athuga, hvort ekki mætti að skaðlausu útvega ódýrari sjúkravist handa sjúklingum þessum. Ennfremur gæti það komið til mála, að Rvíkurbær tæki á sig eitthvað af kostnaðinum. Þetta eru allt atriði, sem þarf að athuga.

Hv. þm. Snæf. vill aðeins berja höfðinu við steininn. Þó að hann sjái, að það þýði ekkert að gera ráð fyrir því, að málið nái fram að ganga á þessu þingi, þá vill hann samt halda því til streitu. Hann um það. En er hv. þm. lýsir því yfir, að ástæðan til þess, að rökst. dagskráin er fram komin, sé sú, að n. hafi engan skilning eða áhuga á málinu, þá vil ég telja það ósæmilegar getsakir í n. garð. Það er tekið fram í nál., sem m. a. er undirskrifað af öðrum flm. þessa frv., að við teljum mál þetta mikilsvert og álítum, að það muni koma að góðu haldi í baráttunni gegn hinum hættulegu sjúkdómum, sem hér er um að ræða. Ég lýsti því líka yfir áðan, að ég teldi málið mikið nauðsynjamál. Er það því ekki annað en rökþrot hjá hv. þm. Snæf., að koma með slíkar staðhæfingar.