08.08.1931
Neðri deild: 24. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1201 í B-deild Alþingistíðinda. (1905)

26. mál, hafnargerð á Akranesi

Pétur Ottesen:

Hv. frsm. minni hl. hefir hrakið þau ummæli hv. 1. þm. S.-M, að hér hefði ekki orðið nein stefnubreyting á síðustu árum um hlutföll á milli fjárframlaga ríkissjóðs og héraða til hafnarmannvirkja. Hann hrakti þetta m. a. með því að sýna, að þegar rætt var um hafnargerðina á Skagaströnd 1929, þá kom fram til. um, að framlag ríkissjóðs yrði ½ kostnaður og ennfremur till. um, að það yrði 1/3, en samþ. var, að það skyldi vera 2/5. Meðferð þess máls sýnir svo greinilega, að fyrri stefnan um 1/3 framlag úr ríkissjóði er alveg brotin á bak aftur. Því að till. um það, sem fram kom þá, var hafnað með miklum atkvæðamun. Þetta er svo greinilegt, að það er gersamlega þýðingarlaust að vera að bera því við, að þetta fari í bága við þá stefnu, sem almennt ríkir um styrkveitingar frá því opinbera til verklegra og nauðsynlegra framkvæmda. Það er svo greinilegt, að afstaða tveggja síðustu þinganna er nákvæmlega hin sama. Það er gagnslaust fyrir hv. frsm. að vitna í það, hvað gert hafi verið áður fyrri. Það má benda á ýmislegt, sem áður tíðkaðist um styrk til opinberra framkvæmda. Fyrir 1923, áður en jarðræktarlögin voru samþ., var styrkurinn; sem veittur var til stuðnings jarðabótum, 12–15 aurar á dagsverkið, en nú 1,50 kr. Það má nefna margt fleira í þessu sambandi, sem sýnir rífari stuðning frá því opinbera nú en áður, til ýmsra verklegra framkvæmda og framfara yfirleitt, og margt er nú styrkt, sem áður naut einskis stuðnings. Það þýðir ekki að benda á ýmislegt í fjarlægri fortíð, heldur miða við það, sem nú ríkir og hefir ríkt á síðustu árum — Þess vegna er það, að ef nú verður samþ., að framlag ríkissjóðs til hafnargerðarinnar á Akranesi verði þá er þar um algerða stefnubreyt. að ræða frá því, sem verið hefir á 3 undanförnum þingum. Og ég verð að segja, að það fer í bága við þá stefnu yfirleitt, sem almennt ríkir um styrkveitingar frá hendi þess opinbera til verklegra og nauðsynlegra framkvæmda í landinu.

Út af því, sem hv. frsm. meiri hl. sagði, að styrkveitingin til Skagastrandar hefði eingöngu verið til lendingarbóta, skal ég geta þess, að það er nú svo um allar hafnargerðir, að þær eru jafnframt lendingarbætur. Þannig er á Akranesi, að hafnargarðurinn á að vinna það tvöfalda hlutverk að mynda höfnina, en er jafnframt notaður til fermingar og afferiningar skipa og báta. Hér er því í orðsins fyllsta skilningi bæði um að ræða höfn og lendingarbót.

Hv. þm. talaði um sérstök skilyrði, sem sett hefðu verið í sambandi við fjárveitinguna til Skagastrandar. Þau skilyrði voru, að sýslunefndin samþ. ábyrgðir fyrir hönd sýslusjóðsins. Þetta gildir hið sama um Akranes. (SvÓ: Hún átti að samþ. þá ábyrgð tvisvar). Af hverju? Af því að menn höfðu ekki trú á því, að hafnargerðin á Skagaströnd svaraði kostnaði. En hver trúir því, að höfn á Akranesi svari ekki kostnaði? En ef hv. frsm. óskar, þá má gjarnan samþ., að sýslunefnd samþ. oftar en einu sinni ábyrgðina, þó að það væri 10 sinnum.

Hv. frsm. meiri hl. sagði, að samanburður á hafnargerðum og vegagerðum væri ekki réttur, því að almenningur hefði meiri not veganna. En ég vil í þessu sambandi benda á það, að undanfarið hefir afli á báta við Faxaflóa frá öðrum stöðum en Reykjavík og Hafnarfirði verið 1/10 af því, sem flutt hefir verið á erlendan markað af verkuðum fiski. En miklu fleiri bátar en nú er mundu þá stunda veiðar í Faxaflóa á vertíðinni, ef til væri þar lægi fyrir þá. Fjöldi útgerðarmanna víðsvegar af landinu sækist eftir að koma bátum sínum hingað á vetrarvertíðinni. En það er ekki hægt sökum hafnleysis.

Með því að byggja höfn á Akranesi, þá opnaðist leið fyrir menn úr öðrum verstöðvum að koma bátum sínum hingað á vetrarvertíðinni. Það má þess vegna líkja hafnargerðinni á Akranesi við vegagerðir, hvað almenn afnot snertir. Og ég efast ekki um það, að eftir því sem bátar stækka á Austfjörðum, eins ótryggar og fiskiveiðar eru þar, mundu þessir stóru bátar leita hingað til Faxaflóa á vertíðinni, ef bætt verður úr hafnleysi nú. Það er því áreiðanlegt, að þessari hafnargerð mætti líkja við þjóðvegi hvað almenn afnot af henni snertir.

Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta mál. Frsm. minni hl. hefir tekið fram svo margt af því, sem ég ætlaði að segja. Ég vona, að augu hv. þm. verði jafnopin fyrir nauðsyn þessa máls og að undanförnu, og ekki dragi úr þeim framkvæmdahug, sem lýst hefir sér á undanförnum þingum. Ef dregið væri nú úr, þá væru það hrörnunarmerki, sem fram kæmu í slíku.