18.07.1931
Neðri deild: 4. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í C-deild Alþingistíðinda. (1920)

10. mál, vatnasvæði Þverár og Markarfljóts

Jón Ólafsson:

Ég geri ráð fyrir, að frv. þetta gangi til hv. samgmn. eins og á síðasta þingi, en ég álít, að full þörf sé nú, eins og þá, að minna á ýms ákvæði 2. og 3. gr. frv. um niðurjöfnun kostnaðar við fyrirhleðslur og aðrar varnir gegn skemmdum á jörðum. Er ég vel kunnugur þar eystra, og fæ ég ekki betur séð en að kostnaðurinn geti orðið meiri en svo, að margir bændur geti risið undir honum. Það er auðséð á ákvæðum 3. gr. frv., að bændum er ætlað að taka þátt í kostnaði við varnir á jörðum sínum. Er ég þess fullviss, að þótt þeir þurfi ekki að bera nema 1/8 hluta kostnaðar, þá verði hann samt meiri en svo, að þeir fái borið hann. Mér finnst, að til framkvæmda ríkissjóðs um verndun hins fagra héraðs, frá eyðileggingu af náttúrunnar völdum ætti það einnig að vera hlutverk ríkissjóðs að sjá um, að bændurnir, sem eiga að njóta verndunarinnar, fari ekki á vonarvöl af þeim ástæðum, að þeim sé ætluð of há greiðsla. Vona ég, að hv. n. taki þetta til greina, en að öðrum kosti mun ég bera fram brtt. um þetta efni á sínum tíma.