20.08.1931
Efri deild: 34. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1206 í B-deild Alþingistíðinda. (1929)

26. mál, hafnargerð á Akranesi

Frsm. meiri hl. (Ingvar Pálmason):

Úr því að frv. þetta ásamt tveimur öðrum (hafnargerð á Sauðárkróki og hafnargerð á Dalvík) eru nú komin hér á dagskrá, verð ég að gera grein fyrir afstöðu meiri hl. sjútvn. bæði til þessa máls og líka til hinna tveggja, sem ég býst við, að komi hér til umr. á eftir. Ég geri ráð fyrir, að umr. um þetta mál geti þá nægt um hin frv. líka, því að málin eru öll náskyld.

Við tveir nm. höfum skilað bráðabirgðanál. um frv. það, sem nú er til umr., með skírskotun til nál. um hafnargerð á Dalvík, en þar er tekið fram, af hvaða ástæðum við treystum okkur ekki til að gefa út nema bráðabirgðaálit. Frv. var hér til 1. umr. á föstudaginn, og var því þá vísað til sjútvn. Nú hefir sjútvn. ekki fundartíma á laugardögum og ekki heldur á mánudögum. Fyrsti fundartími n., eftir að málið kom til hennar, var á þriðjudaginn. Þá hélt n. fund, og mætti þá aðeins 2 nm. Hv. 5. landsk. var forfallaður. Meiri hl. n. setti samt fund og afgr. eitt mál. Þá komu þessi hafnarmál öll nokkuð mikið til umr. milli þessara tveggja nm. og var engin ályktun tekin og það innfært í gerðabókina og hún undirskrifuð af báðum mættum nm. án ágreinings.

Svo í gærmorgun tilkynnti mér sá, sem nú kallast minni hl. n , að hann hefði gefið út sérstakt nál. Þetta kom mér ókunnuglega fyrir, af því að ekkert hafði verið um það talað á fundi n., en við því var ekkert að gera. En meðan á fundi stóð í deildinni, náði ég tali af form. sjútvn. Nd. og bað hann að láta mig fá þau skjöl, sem legið hefðu fyrir n. í vetur, en hann sagði, að n. hefði engin skjöl haft.

Þegar málunum var þannig komið, náði ég í þriðja nm., sem aldrei hafði um málið rætt á fundi og skýrði honum frá málavöxtum, og þar sem minni hl. hafði komið með nál., þá komum við okkur saman um að gefa út bráðabirgðanál. meiri hl. Um leið ákváðum við að afla okkur upplýsinga í málinu sérstaklega hjá vitamálastj., ef hann kynni að hafa einhver plögg viðvíkjandi uppdráttum og áætlunum. Við skrifuðum honum bréf og óskuðum þess að fá umsögn hans um málin, og ennfremur þótti okkur rétt að skrifa fjmrh. og fá álit hans á fjárhagshlið málsins, og í þriðja lagi töldum við það ekki úr vegi, ef tími væri til, að fá álit stjórnar Landsbankans, hvernig hún liti á fjárhagsmöguleika til allra þessara fyrirtækja. Ég get því ekki betur séð en að þessi meðferð okkar meiri hl. manna hafi undir þessum kringumstæðum verið í alla staði þingleg. Hitt tel ég ekki þinglegt að reka málin áfram eins og nú er gert, keyra þau inn í þingið áður en þau hafa fengið næga athugun í n. Hér er ekki um nein smámál að ræða. Ég hefi ekki hirt um að leggja saman þær upphæðir, sem ríkið og hlutaðeigandi héruð koma til með að greiða þeirra vegna, en ég veit, að þær upphæðir eru háar, og þori að segja, að þær eru yfir 2 millj. kr.

Ég neita því alls ekki, að á öllum þessum stöðum er mjög mikil þörf fyrir hafnir, og það er vitanlega æskilegt, að hafnir verði byggðar á sem flestum stöðum kringum landið. En það verður líka að líta á fjáröflunarmöguleikana, bæði frá ríkisins hálfu og líka fyrir hlutaðeigandi héruð og ennfremur það, hvort þessi fyrirtæki geti svarað kostnaði, þegar búið er að framkvæma þau. Alþ. hefir áður samþ. hafnarlög, og ég hygg, að það sé komið á annan tug ára, síðan samþ. voru lög um hafnargerð í Ólafsvík, en framkvæmdir þar hafa gengið mjög seint að því er ég bezt veit, af því að fjáröflun til þeirra hefir gengið erfiðlega fyrir sveitarfél.

Það kom líka mjög greinilega fram við fjárlagaumr. nú fyrir nokkru, hvernig slíkt mál hefir gengið til á ekki ólíklegri stað en Vestmannaeyjum. Þar var brýn nauðsyn á höfn, og var því ráðizt í að byggja hana. Styrkur var veittur til hennar úr ríkissjóði, og þar að auki tók ríkissjóður ábyrgð á láni, sem kaupstaðurinn tók til fyrirtækisins. Ég hygg, að endirinn hafi orðið sá, að Vestmannaeyjum hafi orðið fullerfitt að standa straum af sínum hluta, en út í það skal ég ekki fara nánar nú, en af þessu má sjá, að engu síður ber að athuga fjárhagsmöguleika til framkvæmda slíkra mannvirkja heldur en hina verklegu (teknisku) hlið. Slík hafnarmál eru stórkostleg fjárhagsmál.

Nú er hér um 3 hafnargerðir að ræða, sem hafa ekki fengið meira en sem svarar hálftíma athugun í sjútvn. þessarar d. Ég verð því að segja það, að ef menn eru ánægðir með slíka afgr., þá er ekki mikill vandi að afgr. mál. Það er vitnað í það, að þessi mál séu búin að vera oft fyrir þinginu, en ég leit a. m. k. svo á á þingi 1930, að ekki lægju fyrir svo glöggar upplýsingar um þau, að ég treysti mér til að mæla með því, að þau yrðu samþ. Samt er ég þeirrar skoðunar, að hafnargerð á Akranesi hafi svo miklar líkur til að bera sig, að rétt sé að samþ. lög um hafnargerð þar, og þó er fjárhagsatriðið ekki fyllilega rannsakað þar enn. Um hinar tvær hafnirnar er ég ókunnugri, ég hefi aldrei séð hér á þingi nein sönnunargögn um það, að þær hafnir væru fjárhagslega tryggðar um afborganir, ef í þær framkvæmdir yrði ráðizt.

Ég veit, að öllu þessu má svara á þá leið, að þetta geri ekkert til, því að í frv. sé aðeins heimild til að leggja í þessar framkvæmdir, þegar fé sé veitt til þess í fjárlögunt. En ég lít með meiri alvöru á sjávarútveginn en svo, að ég hafi löngun til þess að ryðja gegnum þingið lögum, sem verða síðan aldrei nema á pappírnum. Ég vil, að rannsakað sé, og það svo að á megi byggja, hvernig, eigi að taka á okkar hafnarmálum yfirleitt. En það má segja, að allt það, sem unnið hefir verið í þessum málum, hafi verið algerlega planlaust, svo að enginn hefir getað vitað, þegar lög hafa verið samþ. í því efni, hvort þau yrðu nokkurntíma framkvæmd.

Ég vil taka hafnarmálin á sama hátt og vega- og símamálin, láta rannsaka vel og vandlega, hvernig á að haga sér í framkvæmd þeirra. Það eina, sem ég veit til, að gert hafi verið til að fá einhvern fastan grundvöll í þessum málum, var gert fyrir nærfellt 20 árum. Þá ferðaðist verkfræðingur einn kringum landið og athugaði, hvar hentugast væri að byggja hafnir og gerði till. um það, hvernig framkvæmdum yrði hagað. Þetta var rétt byrjun, en því miður fór það svo með þetta sem margt annað, er þá var unnið, að það kom að minna haldi en verða hefði mátt.

Að því er Akranes snertir, þá vil ég benda á það, að nú er veitt í fjárl. nokkur upphæð til þess að halda áfram þeirri byrjun, sem nú hefir verið hafin þar. Það er því ekki að neinu leyti verið að tefja fyrir þeim hluta framkvæmdanna, sem bæði ríkissjóður og héraðið kynni að vera fært um að gera nú á þeim stað.

Hér hafa nú fyrir skömmu komið fram raddir um það, að Akranes liði talsverðan baga við það, ef það fengi ekki samþ. lög um hafnargerð nú á þessu þingi. Ég hefi reynt að gera mér grein fyrir því, hvað kauptúnið liði við það, þó að svo færi, að málið biði næsta þings, og ég hefi þar ekki getað komið auga á neitt. Kauptúnið hefir hvort sem er fulla heimild til þess að setja sér hafnarreglugerð, og ég geri ráð fyrir, að hún sé þar til, og það getur þannig gert ráðstafanir til fjáröflunar að svo miklu leyti sem tök eru á. Framkvæmdir geta ekki heldur orðið miklar á þeim tíma sem liður frá því þingi er slitið nú og þar til þingi verður slitið á komandi vetri.

Hv. 1. þm. Reykv. heldur því fram, að það sé bagalegt fyrir Akranes að fá nú ekki ríkisábyrgð fyrir sínu framlagi. Ég get vel skilið, að það muni erfitt fyrir þorpið að fá lán án ríkisábyrgðar, en nú á ríkið samkv. fjárl. að leggja fram 50 þús. kr. og það er þá vitanlega ábyrgð fyrir þeirri upphæð. Hér á móti á svo kauptúnið að leggja sinn hluta, og álít ég a. m. k. forsvaranlegt, að ábyrgð á þeirri upphæð fengist á næsta þingi.

Annars vil ég segja það um þessi hafnarmál öll, að ég tel miklar líkur til, að framkvæmd þeirra verði frestað, því að það er ekkert nema barnaskapur að halda, að eins og nú standa sakir, geti ríkissjóður lagt fram fé til allra hafnargerðanna samtímis umfram öll önnur nauðsynleg útgjöld, nema þá svo litla upphæð, að ef henni væri skipt á milli þessara þriggja staða, þá munaði mjög lítið um hana. Það er því óskapleg fásinna, að vilja leysa þetta mikla vandamál sjávarútvegsins á þann hátt. Hver, sem um þetta hugsar með alvöru, hlýtur að kannast við, að á rannsókn verður allt að byggjast, annars er það fálm út í loftið, sem kemur af því, að menn halda, að með því geti þeir unnið sér kjörfylgi í sínu kjördæmi. Ef væri verið að unga út á hverju þingi 2–3 hafnarlögum, þá er það bersýnilegt, að þau kæmust ekki lengra en á pappírinn, og slíkar aðgerðir eru hafnarmálunum til ógagns, en ekki til góðs. Þá mundi ekki líða á löngu áður en hér væru 10-15 hafnarlög, og þegar ekki væri hægt að veita til þeirra framkvæmda nema 100–150 þús. kr. á ári, þá sjá allir, hvernig sú framkvæmd mundi ganga, þegar ekki færu nema 10–15 þús. kr. í hvern stað, því að vitanlega mundu allir vilja fá eitthvað.

Hér á þingi hafa verið samþ. hafnarlög fyrir Hafnarfjörð, og þar munu fremur en víðast annarsstaðar hafa verið góð fjárhagsleg skilyrði fyrir hendi. Samt veit ég ekki betur en að ríkið eigi þar mjög mikið starf óleyst af hendi. Ég nefndi áðan Ólafsvík, svo er Skagaströnd, og nú á að bæta þremur nýjum höfnum við. Hvað er svo við það unnið? Ég býst ekki við, að það sé neitt. Hitt tel ég rétt, á meðan þessi hafnarmál eru ekki fullrannsókuð, að ríkið veiti svo sem 50 þús. kr. árl. til hafnargerðar á Akranesi gegn vissu framlagi héraðsins, og að ríkissjóður taki þá ábyrgð á því láni, sem héraðið þyrfti að taka til hafnargerðarinnar á móti framlagi ríkissjóðs. Þetta álít ég vel viðunandi í bili fyrir alla málsparta. Hitt finnst mér heimska, að vilja afgr. þessi mál eins og hefir átt að gera á þessu þingi, þar sem þau hafa ekki einu sinni mátt athugast sæmilega í n.

Mér er sama, þó að mér verði fyrir þessa afstöðu mína brugðið um það, að ég vilji standa á móti málum sjávarútvegsins; ég er ekki orðsjúkur og læt mér það í léttu rúmi liggja, hver dómur kann um það að verða felldur. Og þó að þessi hafnarmál strönduðu nú í þetta skipti, þá teldi ég mig hafa unnið þar gott verk, þó að ég væri þess valdandi, ef það yrði til þess, að síðar yrði tekin upp heilbrigðari stefna í hafnarmálum en áður hefir verið gert.

Ég hefi þá lokið máli mínu að þessu sinni, og verður nú að skeika að sköpuðu um afdrif þessara mála. En hver sem þau afdrif verða, þá mun ég ekki láta niður falla, meðan ég hefi tækifæri til, að benda hv. þm. á þá ágalla, sem ég tel vera á þessum málum, eins og þau eru nú.

Ég vildi mega vona það, að þegar þing kemur saman næst, væntanlega eftir nokkra mánuði, þá mætti þessari hv. þd., sem hefir verið talin sú reyndari deild og nokkurskonar hemill á flausturslegar framkvæmdir, takast að athuga betur en gert hefir verið þessi mál, sem nú liggja fyrir.

Ég skal ekki dæma um, hvernig þessi hv. d. hefir innt af hendi þetta hlutverk, en vil vænta þess, að hún hætti ekki alveg að vanda til þeirra verka, sem fyrir henni liggja.

Ég skal svo láta hér staðar numið að sinni. Ég geri ráð fyrir að svara hv. frsm. minni hl., þegar hann hefir talað, og eftir því hvað hann reið snögglega úr garði í gær, býst ég við, að næsti sprettur hans verði býsna harður.