20.08.1931
Efri deild: 34. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1212 í B-deild Alþingistíðinda. (1931)

26. mál, hafnargerð á Akranesi

Frsm. minni hl. (Jakob Möller):

Ég skal fara ákaflega hægt og rólega. Það mun verða alveg eins affarasælt, eins og sést á því, að hv. frsm. meiri hl. tók nú mjög harðan sprett, en mun þó lítið hafa á unnið.

Hv. þm. lét þau orð falla, að þessi hv. d. hefði það hlutverk, að hún ætti að vera hemill á framkvæmdum þings og þjóðar. Það getur verið, að hann vilji hafa hana fyrir hemil á allar framkvæmdir í landinu, en hitt er víst, að ekki munu allir óska þess.

Út af því, sem hv. þm. sagði um afgr. þessa máls í n., vil ég segja það, að ekki fór hann þar rétt með, því ég gat þess við hann, að það myndi fara svo, að ég kæmi með sérstakt nál., þó að mér láðist að skýra frá afstöðu minni í n. Hitt er rétt, að ég var ekki ákveðinn í, hvað gera skyldi fyrir málið, til að reyna að fá það fram. Framsóknarmennirnir í n. voru yfirleitt á móti því, að málið gengi fram á þessu þingi, og ég var í efa um, hvort það hefði nokkra þýðingu að knýja málið áfram inn í d. En við nánari athugun komst ég að þeirri niðurstöðu, að það væri rétt, og sagði hv. frsm. meiri hl. það, að ég hefði afhent minni hl. nál.

Ég skal engan veginn reyna að andmæla því, sem hv. þm. sagði um að rannsókn þessa máls í sjútvn. hafi ekki verið stórkostleg, og ég verð að játa, að af minni hendi hefir lítil rannsókn á því farið fram. En til afsökunar því vil ég segja það, að til þess gafst ekki tími, vegna þess, hvað málið var lengi fyrir hv. Nd. Og þó hv. frsm. meiri hl. talaði um, að fyrir sjútvn. Nd. hefðu ekki legið nein skjöl þessu máli viðvíkjandi, þá var ég samt svo heppinn, að geta fengið þau skjöl frá vitamálastjóra, sem hv. meiri hl. n. bað um að senda sér, og þessi skjöl lágu þá í vörzlum þingsins. Það er sem sagt fjarstæða að segja, að hafnargerð á Akranesi hafi ekki verið rannsökuð. Hún hefir verið rannsökuð og gerð áætlun um framkvæmd verksins, og áætlað er, að þetta kosti 900 þús. kr. af 1 milljón, sem gert er ráð fyrir, að það kosti allt. Það þýðir því ekki að segja, að þetta mál, hafnargerð á Akranesi, sé ekki undirbúið. Og í þeim málum, sem hafa verið rannsökuð af sérfræðingum, er það ekki verkefni þingn. að taka þau til nýrrar rannsóknar; þar hefir þingn. ekki annað verkefni en reyna af sínum veika mætti að setja sig inn í málin, eftir þeim gögnum, sem sérfræðingarnir hafa lagt henni upp í hendur.

Um nauðsyn hafnargerðar á Akranesi er ekki að efast. Það vita allir, að Faxaflói er með allra mestu fiskisvæðum landsins, og að við Faxaflóa kemur mestur fiskur á land. Landið lifir á fiskveiðunum, og mikill hl. þess fiskjar er veiddur hér í Faxaflóa. Og það sem veiðist með bátaútgerðinni við Faxaflóa, er stór hl. af fiskveiðum alls bátaútvegs landsmanna. En auk þess er þess að geta, að hér við flóann er í raun og veru engin smábátafiskihöfn til, og að Akranes liggur einna bezt við til að vera smábátaathvarf hér við flóann.

Ég vil í þessu sambandi minna á, að þegar ráðizt var í það að gera höfn hér í Reykjavík, þá þótti það djarft teflt að ráðast í framkvæmdir, sem kostuðu stórfé á þann mælikvarða, sem þá var. En reynslan hefir nú orðið sú, að höfnin hefir orðið lyftistöng fyrir atvinnuveg. bæjarbúa, og ekki einungis borið sig, heldur grætt svo fé, að hún hefir sjálf getað staðið straum af kostnaðinum við að byggja hana. Eins mun fara um höfn á Akranesi; hún mun bera þann kostnað, sem í hana verður lagður, og auka framleiðsluna stórkostlega, ekki aðeins Akrnesinga, heldur allra þeirra manna, sem stunda fiskveiðar við Faxaflóa. Og hún mun ekki aðeins standa straum af sér sjálf, heldur efla hag manna við Faxaflóa, efla hag ríkissjóðs og gera landsmenn færari til að standast þær byrðar, sem þeir verða að bera, og mæta þeim kröfum, sem til þeirra eru gerðar.

Hv. frsm. meiri hl. talaði um það sem hina mestu fásinnu, að tekið væri lán erlendis til þeirra framkvæmda, sem hér er um að ræða. En þetta lítur allt öðruvísi út fyrir mér. Það er einmitt til slíkra framkvæmda, sem eru arðberandi, arðberandi á þann hátt, að þær auka getu til að greiða í erlendum gjaldeyri, að ég álít það fullkomlega réttmætt að taka erlent lán. Og ég álít það engan vafa, að hér sé um slíkt fyrirtæki að ræða.

Ég sé ekki ástæðu til að tala hér lengra mál um þörfina á að gera höfn á Akranesi. Hún er svo augljós öllum, einnig hv. frsm. meiri hl. n. Það er ekki af því, að hann sjái hana ekki, að hann vill afgr. þannig þetta mál, heldur af öðrum ástæðum, sem ég skal nú gera grein fyrir.

Mér skilst, að það sem vakir fyrir hv. frsm. meiri hl. sé það, að það þurfi að skipuleggja allar hafnargerðir í landinu. og að það eigi að láta allar framkvæmdir bíða eftir þeirri skipulagningu. Hann notaði að vísu ekki orðið að skipuleggja, en það er nú svo algengt slagorð í þeim herbúðum, sem hv. frsm. meiri hl. heyrir til, að ég hefi kosið að nota það. En ég tel, að það sé hættulegt, ef fara á inn á þá braut, að láta nauðsynlegar framkvæmdir bíða eftir því, að teknar séu fullnaðarákvarðanir um sambærilegar framkvæmdir um allt land. Ég álít, að þetta sé niðurdrepandi fyrir framkvæmdir og blómgun atvinnuveganna í landinu. Ég sé ekkert á móti því og er ekkert að andmæla því, að það sé æskilegt að gera heildaráætlanir, en álít ekki, að nauðsynjaframkvæmdir eigi að bíða eftir því, að slíkar áætlanir séu gerðar. Þetta er viðurkennt, ekki einungis af mér, ekki einungis af hv. frsm. meiri hl., og ekki einungis af hv. sjútvn. þessarar hv. d., heldur einnig af hinu háa Alþingi sjálfu með því, að það hefir ætlað fé til þessara framkvæmda í fjárl. Þar með er búið að ákveða, að ráðizt skuli í þessa hafnargerð á Akranesi. Hvers vegna á þá að bíða með að setja l. um þetta, l., sem eru bráðnauðsynleg til þess að verkið komist í framkvæmd? Er ekki hv. Alþ. að spyrna þarna fæti í eigin framkvæmdir?

Hv. frsm. meiri hl. talaði um, að geta ríkissjóðs væri svo lítil, að hann gæti ekki lagt nema 100–150 þús. kr. á ári til hafnargerða, og taldi það allt of lítið til, að hægt væri að ráðast í svona framkvæmdir. Hinsvegar taldi hann rétt, að ríkissjóður fleygði smáupphæðum til óákveðinna hafnargerða, en vildi ekki láta setja ákveðin l. um framkvæmdir á ákveðnum einstökum stað. Þegar hv. þm. talar um, að 100–150 þús. kr. sé lítið, en álítur nóg að veita 50 þús. kr. til hafnargerðar á Akranesi, þá skilst mér, að þessar 100–150 þús. kr. nægðu til allra þessara framkvæmda á öllum þeim stöðum, sem hér er um að ræða, og meira til, því það er vitanlegt, að hafnargerðir kosta minna fé á hinum stöðunum en á Akranesi.

Hv. frsm. meiri hl. sagði, að það væri satt, sem ég hefði sagt, að það væri afskaplega bagalegt fyrir sveitarfél., sem stendur ekki undir þessari hafnargerð, að geta ekki fengið ríkisábyrgð fyrir láni til framkvæmdanna, en að hann teldi ekki rétt að veita ríkisábyrgð nema fyrir smáupphæðum við og við, og svo meira. eftir því sem verkinu miðaði áfram, svo það ætti ekki að þurfa að standa í vegi fyrir framkvæmdum. En ég held, að þetta samræmist ekki vel hans heildaráætlanahugsjón, því með hana fyrir augum held ég, að það væri heppilegra að taka ákvörðun um framkvæmdir í eitt skipti fyrir öll.

Það má í þessu sambandi minna á, hvernig farið hefir um framkvæmdir, sem Alþ. hefir þannig tekið þátt í, með því að veita styrk til þeirra, og byrjað hefir verið á. Til að nefna eitt nýlegt dæmi, get ég minnzt á sjúkrahúsið á Eyrarbakka; það munu allir vita, hvernig fór um framkvæmdirnar þar. Alþ. veitti styrk til að koma því upp, en það var engin endanleg ákvörðun tekin um framkvæmd verksins. Það var svo hlaupið frá verkinu hálfgerðu, og kom það ekki að neinum notum til þess, sem það var ætlað, þó húsið hafi síðar verið tekið til allt annarar notkunar. Ég verð að álíta, að það sé ekki viðunandi fyrir þá, sem ætla að ráðast í slíkar framkvæmdir sem um er að ræða á Akranesi, að þeim sé rétt hjálparhönd á þennan hátt. Það er ekki von, að það sé hægt að fá það fé, sem nauðsynlegt er til slíkra framkvæmda upp á þær spýtur, að að hálfnuðu verki sé hlaupið frá öllu saman. Þess vegna er það, að meðan ekki er gerð fullnaðaráætlun um framkvæmd verksins, meðan því er ekki slegið föstu, að lokið verði við verkið, er ekki við að búast, að það takist að útvega féð.

Ég held því fram, að það sé ekki einungis réttmætt, heldur og sjálfsagt, að fara þá leið, að ákveða um fullnaðarframkvæmdir á einstökum stöðum, þegar það er viðurkennt, að það sé nauðsynlegt að ráðast í slíkar framkvæmdir. Og það hefir verið sýnt fram á, að það er það á Akranesi.

Ég sé svo ekki ástæðu til að orðlengja meira um þetta mál; það er búið að tala svo mikið um það hér á hv. Alþ., þó ég hafi ekki átt kost á að gera það fyrr. Það munu því flestir hv. þdm. vera þessu máli svo kunnugir, að ég þarf ekki að skýra það fyrir þeim.