29.07.1931
Neðri deild: 15. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1235 í B-deild Alþingistíðinda. (2008)

64. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Einar Arnórsson:

Ég hafði hugsað mér að segja nokkur orð í þessu máli áður en hv. þm. G.-K. hefði talað sig dauðan, til þess að hann gæti talað yfir mér áður. Ég var ekki alltaf inni þegar hv. frsm. talaði fyrir málinu, og má því vel vera, að það, sem ég segi, verði að einhverju leyti endurtekning á því, sem hann sagði.

Hv. þm. G.-K. hélt því fram sem fyrr, þegar samskonar mál hefir verið til umr., að það væri ekki samkv. sveitarstjórnarl., helzt 3. gr., hvernig farið væri með þetta mál. (ÓTh: Það gerði ég í hitteð-hitteðhitteðfyrra). En 3. gr. sveitarstjórnarl. varðar alls ekki þetta mál. Hún segir aðeins, að framkvæmdavaldið megi almennt ekki breyta takmörkum hreppa eða skipta hreppum fyrr en álit og meðmæli hreppsn. og sýslun. eru fengin. En vitanlega segir ekki löggjafinn þar með, að löggjafarvaldið geti ekki gert þetta. Reyndar er það upplýst, að álits hreppsnefndar hefir verið leitað, og ég held, að álits sýslun. hafi einnig verið leitað. En það er víst, að sýslun. hefir af hreppapólitískum ástæðum verið eins og hv. þm. G.-K. á móti þessu máli, af því hún álítur eins og hv. þm., að það sé tjón fyrir sýsluna. En vitanlegt er, að löggjafarvaldinu er ekki markaður bás til að rannsaka og leiða slíkt mál til lykta. Ég skil það vel, að hv. þm. mælir á móti þessu frv. Það er ekki nema eðlilegt, úr því að Kjósarsýsla er á móti því; þá skoðar hann það sem skyldu sína sem þm. kjördæmisins að vera einnig andvígur því. (ÓTh: Hv. 2. þm. Reykv. er líka að reka erindi sinna kjósenda). Annars er eitt atriði, sem ég vildi benda hv. þm. á, og það er, að í þorpinu eru 500–600 íbúar, og þá er samkv. lögum hægt að gera það að sérstöku sveitarfélagi, og kemur það vafalaust með tímanum, að þeir æskja þess. Ég geri ráð fyrir því, að það verði ekki langt þangað til þarna verður að byggja barnaskóla, því ekki geri ég ráð fyrir, að börn úr kauptúninu verði látin sækja barnaskóla fram á Nes. Þá getur svo farið, að Seltjarnarneshreppur kæri sig ekki um að hafa þetta þorp innan sinna vébanda. Hvað sem þessu líður, þá er sjálfsagt, að hreppnum verði skipt eftir þeim reglum, sem hafðar eru um þetta efni. Það hefir verið margtekið fram, að þorpið getur ekki verið án þess að hafa þau fríðindi úr Reykjavík, að fá þaðan vatn og rafmagn. Ennfremur er í ráði að stofna til betri samgangna innan endimarka kaupstaðarins. Það er ekki efi á því, að íbúar Skildinganess munu bráðum koma til bæjarstj. og segja: „Blessaðir látið þið bæjarbílana koma til okkar suður eftir; við þurfum að hafa svo miklar samgöngur við ykkur“. Ég býst við, að það komi bráðum slík beiðni eins og með rafmagn og vatn. Hitt er líka sjálfsagt, að vatnsveitufélag í Skildinganesi, er fengið hefir vatn úr veitu Rvíkur, fái endurgjald fyrir verk sitt. Hvort nauðsynlegt er að setja ákvæði um þetta í lagafrv., skal ég láta ósagt. Þetta er einkafélag, og þeir eiga sína vatnsveitu, eiga æðarnar úr höfuðvatnsveitu Reykjavíkur, og auðvitað er eftir gildandi lögum ekki skylda að láta þær af hendi, nema gjald komi fyrir. Annars er ég ekki á móti því, að réttur þeirra sé tryggður með ákvæðum laga.

Þó að ekki sé það neitt nýtt fyrirbrigði, er engin ástæða til að vera að gera gys að mönnum fyrir að hafa skipt um skoðun í einhverju máli. Eins og hv. þm. G.-K. réttilega hefir sagt, getur það verið manni engu síður til lasts en lofs að vera svo þrár, að vilja aldrei hverfa frá upphaflegri skoðun sinni. Ég fyrir mitt leyti tel það geta verið manni til lofs, ef hann skiptir um skoðun á máli vegna þess að aðstæður hafa breytzt og auknar upplýsingar komið fram í því. Það getur í sumra augum verið fallegt að beita sauðþráa, en því fer fjarri, að svo sé í allra augum. Og ég álít, að þeir menn, sem áður hafa verið á móti þessu máli, geti kinnroðalaust léð því fylgi sitt nú, því að það er víst, að málið hefir aldrei verið eins vel upplýst sem nú, auk þess sem ýms atvik hníga í þá átt, að sjálfsagt sé og eðlilegt í alla staði, að þetta umrædda svæði hverfi undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur.