29.07.1931
Neðri deild: 15. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1237 í B-deild Alþingistíðinda. (2009)

64. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Frsm. (Jón Ólafsson):

Ég þarf ekki miklu að svara hv. þm. G.-K., því að hann hafði engin rök fram að færa móti því, sem ég sagði hér í minni fyrri ræðu.

Hv. þm. þóttist geta dregið það af því, hvað hér eru fáir viðstaddir í d., að þetta mál mundi verða fellt við atkvgr. Þykir mér þetta alleinkennileg röksemdafærsla hjá hv. þm. G.-R. Ég hélt nú, að hv. þm. G.-K. kannaðist við það, t. d. frá afgreiðslu fjárl. hér í d., að hér er ekki alltaf þéttsetinn bekkurinn, og oftar en hitt, að menn tala hér yfir tómum stólum. Veit ég þó ekki til þess, að fjárl hafi nokkru sinni verið felld, þrátt fyrir það, þó að þm. hafi ekki sinnt að hlýða ræðum þeim, sem um þau hafa verið fluttar. Það verður því ekki mikið af þessu dregið um úrslit þessa máls, sem ég vona nú fastlega, að verði á annan veg en hv. þm. G.-K. spáði.

Þá bar hv. þm. G.-K. mér það á brýn, að ég hefði verið að hæða þá menn, sem horfnir eru frá sinni fyrir skoðun á þessu máli og nú ljá málinu fylgi sitt. Ekkert væri fjær mér en þetta, enda er þetta hreinn uppspuni hjá hv. þm. Ég hefi kynnzt mörgum mönnum það sem af er æfinnar, og hefir mér jafnan fundizt þeir menn, sem vilja fá tíma til að athuga hlutina, áður en þeir taka afstöðu, farsælli í þjóðfélaginu heldur en hinir, sem ekkert sjá, ef þeir sjá það ekki við fyrsta yfirlit. Mun það flestra mál, að þeir, sem gleypa við öllu ómeltu, séu lítil fyrirmynd annara, og slíkir menn geta oft verið beinlínis skaðlegir þjóðfélaginu. Ég kann því þess vegna hálfilla, þegar verið er að bera þá menn brigzlum, sem hafa sýnt, að þeir vildu kynna sér hið rétta í þessu máli, til þess að geta síðan samþ. það eða fellt með rökum. Og það þýðir ekkert fyrir hv. þm. G.-K. að vera að koma með annað eins og þetta til stuðnings máli sínu, eins og hv. þm. hlýtur að sjá sjálfur. Hann er enn of ungur til að bera skyn á hluti, sem nauðsynlegt er að þekkja, til þess að unnt sé að fella rétta dóma í þessu efni.

Það er rétt hjá hv. þm. G.-K., að bæjarstj. Rvíkur vildi ekki láta Skildinganesi vatn í té svona skilyrðislaust, enda þurfti bærinn þess ekki, þar sem hann hefir nóg með sjálfan sig í því efni, en árið 1923, þegar Eiði og Árbær var lagt undir Rvík, varð það að samkomulagi, að Rvík skyldi láta þetta af hendi, og eins og bærinn offraði þessu þá, er hann reiðubúinn að leggja nokkuð í sölurnar nú, til þess að fá þessari málaleifan framgengt, og er þó vitanlegt, að ef þessi umræddi skiki verður ekki lagður undir lögsagnarumdæmi Rvíkur, verður þess ekki langt að bíða, að hann verði sérstakur hreppur.

Þá var hv. þm. G.-K. að tala um það, að Kjósarsýsla ætti að fá bætur fyrir að láta þennan skika af hendi, ef til kæmi. Það er nú sagt svo, að sýslan tregðist við að veita fé til nauðsynlegra framkvæmda á þessu svæði, svo sem vegalagningar, þrátt fyrir allar þær tekjur, sem sýslan hefir af þessum skika, og muni þetta gera sitt til að ýta undir það, að þeir, sem þarna búa, kjósi fremur að losna undan yfirráðum sýslunnar um sameinast Rvík. eða mynda sérstakt hreppsfélag að öðrum kosti. Þegar tekið er tillit til þessa, að sýslan vill ekkert fyrir þetta svæði gera, fæ ég ekki séð, að nein ástæða sé til að bæta sýslunni upp missi þess, en sú n., sem 3. gr. frv. gerir ráð fyrir að skipuð verði, ef til framkvæmda kemur í þessu máli, mun að sjálfsögðu taka þetta til athugunar sem annað í sambandi við þetta mál

Mér skildist svo á hv. þm. G.-K., að Rvík ætti ekkert að aðhafast í þessu máli, fyrr en þarna væri risið upp mannvirki, sem bænum gæti stafað hætta af. Ég hefi alltaf haldið því öfuga fram, og held því fram enn, að Rvík verði að standa á verði um það, að þarna verði ráðizt í stærri framkvæmdir en hæfilegt má þykja til þess að fyrirbyggja það, að skipulagning þessa skika verði úr hófi kostnaðarsöm í framtíðinni. Ef þarna er byggt skipulagslaust hingað og þangað um skikann, verður að kaupa mörg hús og flytja til, til þess að koma skipulagi á um byggingar á þessu svæði. Er það ekki lítið fé, sem farið hefir til þessa hér í bænum, af því að hér fékk hver að byggja eftir geðþótta sínum löngu fram yfir aldamót. Býst ég við, að það nemi ekki hundruðum þúsunda, heldur milljónum, sem Reykjavíkurbær verður að punga út með á sínum tíma í þessu skyni. Þetta sjá allir, sem vilja sjá það, og það er of seint að ætla sér að fara að hindra það, þegar skikinn er albyggður orðinn. Sama máli gegnir um það, ef þarna verður gerð höfn. Þegar byrjað er á höfninni á annað borð, verður erfiðara að koma í veg fyrir, að hún rísi upp, eða a. m. k. þyngra að standa straum af skaðabótum til handa þeim aðila, sem missir í við það, að þessi landskiki verður sameinaður Rvík. En ég er í engum vafa um, að sá verður endir þessa máls, að það verður gert, ef ekki á þessu þingi, þá á einhverju næsta þingi. En því lengur sem sú framkvæmd dregst, því meiri kostnað hefir þetta í för með sér fyrir Reykjavíkurbæ, auk ýmissa annara spjalla, sem allur dráttur á málinu hefir í för með sér. Þetta þarf því að komast fram strax.

Út af því, sem hv. þm. G.-K. sagði viðvíkjandi undirskriftunum, sem farið hafa fram þarna úti á Skildinganesi út af þessu máli, vil ég leyfa mér að benda hv. þm. á það, að þeir, sem þangað hafa flutt sig í sparnaðarskyni, til þess að smeygja sér undan réttmætum gjöldum, sem þeim ber að greiða til Rvíkurbæjar vegna fyrirtækja eða atvinnurekstrar hér á staðnum, þeir menn skrifa að sjálfsögðu aldrei undir neitt skjal þess efnis, að þeir óski eftir að heyrt undir lögsagnarumdæmi Rvíkur, sem þeir voru að flýja með því að flytja suður á nesið. Þeir aðrir, sem þarna búa, munu flestir eiga þá ósk heitara, að þetta frv. nái fram að ganga. Auk ýmissa annara hlunninda, sem sameiningin við Rvík mundi hafa í för með sér, myndu þeir, sem þarna búa, t. d. losna við að byggja skóla fyrir börn sín, eins og hv. 3. þm. Reykv. tók réttilega fram. Eins og nú er þurfa þeir að láta börn sín ganga í skóla alla leið út á Seltjarnarnes, en við slíkt verður ekki unað til lengdar, eftir því sem byggðin eykst og fólkinu fjölgar á þessum stað. En það er víst, að Seltjarnarneshreppur byggir aldrei sérstakt skólahús fyrir þennan hluta hreppsins, og hann verður að skilja sig út úr og mynda sérstakt hreppsfélag til að geta komið því fram. Hinsvegar myndu þeir, sem þarna búa, geta sent börn sín í skóla hér í Rvík með hægu móti, þegar komnar væru á betri samgöngur þarna suður eftir, eins og fljótt mun verða, ef svo fer um þetta mál sem ég vona.