08.08.1931
Efri deild: 24. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í C-deild Alþingistíðinda. (2016)

9. mál, brúargerðir

Magnús Torfason:

Ég bjóst við því, að hv. frsm. mundi minnast á brtt. mína á þskj. 121, um það, að gerð yrði brú á Kálfá í Gnúpverjahreppi, og það því fremur, sem umsögn um þessa brú er í bréfi vegamálastjóra. Brúin er á sýsluvegi, sem liggur upp í Þjórsárdal og er einhver fjölfarnasti ferðamannavegur hér sunnanlands. Mun kostnaður við brúargerðina áætlaður 7000 kr. Vil ég geta þess, að langt er síðan sú áætlun var gerð. Það mun hafa verið ekki síðar en árið 1919 eða 1920. Ennfremur vil ég geta þess, að fyrir 1920 var lagður vegur að brúarstæðinu, og er hann ónotaður enn í dag, en áin er farin á vaði. Veit ég, að vegamálastjóri lítur svo á, að þarna beri að gera brú og sé það ein af þeim brúm, sem sízt megi dragast, að byggð verði, og ríkissjóði beri að kosta, þar sem þetta er svo fjölfarin ferðamannaleið, bæði útlendum og innlendum mönnum. Vona ég því, að brtt. fái góðan byr hér í deild.

Þó að ég sé ekki flm. skrifl. brtt., sem kom frá hv. 5. landsk., vil ég geta þess, að brú sú, sem þar fjallar um, er á afrétti í Biskupstungum. Liggur hún á Kjalvegi, sem áður var aðalvegur milli Suður- og Norðurlands og hefir verið allfjölfarinn á síðari tímum. Mun það flestum kunnugt, hvernig þarna hagar til. Eru ferjur í ánni, og hefir oft orðið að baga, hvernig með var farið. Hefir það eigi ósjaldan komið fyrir, að báðar ferjur hafa verið öðrumegin, svo að ekki hefir verið hægt að komast yfir nema því aðeins, að vatnamenn hafi fengizt til að sundríða ána, til þess að sækja ferjuna. Mun menn reka minni til, að sæluhús var gert á þessari leið, vegna mikillar umferðar. Var það Ferðamannafélagið, sem þetta gerði. Eins munu hv. þm. minnast þess, að blaðadeilur risu út af umferð þessari. Er þarna aðalafréttur Biskupstungnamanna, og varð af umferðinni styggð á fé þeirra svo að það hrökklaðist á fjöll upp eða niður í byggð, og tóku margir af hinn mesta skaða. Hefir afrétturinn legið undir miklum afföllum og áföllum af umferð þessari, og er það sanngjarnt, að brúin komi þar á móti. Væri slíkt hagræði mikið fyrir Biskupstungnamenn við rekstur fjár á afrétt og af. Þarf ég að svo stöddu ekki að eyða fleiri orðum að þessum tillögum.