08.08.1931
Efri deild: 24. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í C-deild Alþingistíðinda. (2024)

9. mál, brúargerðir

Jón Jónsson:

Ég get haft sama formála sem þeir tveir hv. þm., sem síðast hafa talað. Ég hafði gert mér vonir um, að frv. mundi ganga fram nú óbreytt frá því, sem það var í fyrra, en hv. d. tók upp aðra stefnu í málinu við 2. umr. en hér var ríkjandi í fyrra, og afleiðingin hefir orðið að spá minni, því að hér liggur nú fyrir sandur af brtt. við frv. Hefi ég þó farið hægt í sakirnar, því að ég flyt ekki nema 3 brtt. við frv., og raunar ekki nema tvær, því að sú þriðja er ekki nema leiðrétting.

Þessar brtt. mínar eru á þskj. 111. í þrem stafliðum. Fyrsti stafliður er ekki annað en leiðrétting, eins og ég áður sagði, og þessleiðis, að í stað orðanna: „Kolgríma á Mýrum“ komi: Kolgríma í Suðursveit. Mér vitanlega er ekki nein á á Mýrum með þessu nafni, enda er átt við Kolgrímu í Suðursveit, og þykist ég vita, að enginn hafi því á móti þessari sjálfsögðu leiðréttingu.

Undir öðrum staflið brtt. minnar fer ég fram á það, að tekin verði upp í frv. brú á Heinabergsvötnum í Austur-Skaftafellssýslu. Eins og allir vita, er mjög erfitt um allar samgöngur í Skaftafellssýslum og vegalengdir allar þar mjög gapalegar. Nú er gert ráð fyrir, að sett verði bílferja á Hornafjarðarós, svo að bílar geti gengið þaðan alla leið vestur í Suðursveit, og mun það meðfram vegna þessara fyrirætlana, að vegamálastjóri hefir tekið brúna á Kolgrímu upp í frv., en brúin á Kolgrímu kemur ekki að fullum notum nema jafnframt verði sett brú á Heinabergsvötn, því að vatnið liggur austar en Kolgríma, og þarf því fyrst að fara yfir það, þegar farið er frá Hornafirði vestur í Suðursveit. Bar þetta og á góma í samgmn. í vetur, og tjáði vegamálastjóri sig þá hlynntan hugmyndinni, en bar því við, að hann hefði fylgt þeirri reglu að taka enga brú upp í frv., sem kostnaðaráætlun lægi ekki fyrir um. En nú hefir brúarstæði þarna verið rannsakað lauslega, eins og vegamálastjóri getur um í erindi sínu til þingsins nú, og er áætlað, að brúin muni kosta um 30 þús. kr., að því er vegamálastjóri segir. Vænti ég þess fastlega, að hv. d. geti fallizt á að samþ. þessa till., því að það er hvorttveggja, að Heinabergsvötn liggja á þjóðvegi, enda er brú á vötnunum nauðsynleg til þess að brúin á Kolgrímu geti komið að fullum notum, eins og ég áður sagði.

Þriðji stafliður till. minnar gengur út á það, að brú á Fnjóská í framanverðum Fnjóskadal verði tekin upp í frv. Þessi á er ekki á þjóðvegi, heldur á sýsluvegi, og kemur því undir A. III. Er ein brú á ánni fyrir, utan til í dalnum, þar sem þjóðvegurinn liggur um ána, hér um bil 25 km. frá dalbotninum, en áin er oftast ófær allt fram í sláttarbyrjun, nema, þá á ferju, en ferjustæði við hana ekki gott. Er áin því hinn versti þröskuldur Fnjóskdælingum, og Bárðdælingum reyndar líka, því að þeir sækja mest verzlun til Akureyrar og verða þannig yfir ána að sækja, en það er þeim mjög úr vegi að þurfa að krækja út á brúna. Auk þess er jafnan mikið langferðamanna á þessum slóðum á sumrin, sem það mundi koma vel, ef Fnjóská væri brúuð í framanverðum dalnum, eins og till. mín gengur út á. Þessi brú mundi verða alldýr og því erfitt fyrir héraðið að standa straum af henni að sama leyti og er um aðrar sýsluvegabrýr. Hefir að vísu ekki verið gerð formleg áætlun um það, hvað brúin myndi kosta, en eftir því, sem góðir og glöggir menn hafa áætlað, mun kostnaðurinn verða eitthvað um 20–30 þús. kr., enda telja þeir, að brúin verði að vera um það bil jafnlöng þeirri brú, sem fyrir er á ánni. Mælir öll sanngirni með því, að þessi brú verði einnig tekin upp í brúarlögin, enda vænti ég þess, að svo verði, en meiri áherzlu mundi ég þó leggja á það, að brúin á Heinahergsvötnum yrði samþ. En auðvitað helzt báðar tvær.