07.08.1931
Neðri deild: 23. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1253 í B-deild Alþingistíðinda. (2039)

64. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Bjarni Ásgeirsson:

Út af því, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði um það, að málshátturinn um örlög Karþagóborgar væri ekki heppilega valinn, hvort sem maður tæki Skildinganes eða Kjósarsýslu, skal ég þó geta þess, að hér er um að ræða að svipta þessa landshluta nokkru af því sjálfstæði, sem þeim ber samkv. landslögum, og möguleikunum til fjárhagslegra og menningarlegra framfara. En það má nú auðvitað líta svo á, að séð séu fyrir örlög Karþagóborgar Skildinganess þegar svo er komið, að Reykvíkingar virðast horfa á það með köldu blóði, að hús á Skildinganesi brenni upp til kaldra kola, ef það verður ekki innlimað í Reykjavík. Það er öðruvísi en í sveitunum, þar sem allir hlaupa upp til handa og fóta til aðstoðar, þegar kviknar í hjá náunganum. Það má því segja, að örlögin séu ákveðin, því ef frv. verður ekki samþ., þá má búast við, að þorpið verði látið brenna upp til agna, ef svo vill verkast. Hv. þm. vildi færa það fram sem sterk rök fyrir því, að Reykjavíkurbær innlimaði Skildinganes, að hann umlyki það á alla vegu. Ef þetta væri rétt, þá ætti Kjósarsýsla að eiga jafnan rétt til Rvíkurbæjar og geta gert sterkar kröfur til hans, þar sem hún umlykur bæjarlandið fram í sjó beggja vegna.

Ég vildi að lokum benda fulltrúum bænda á það, að þar sem hefir nú verið talað um að gera Rvík að fríríki, þá er það ekki hyggilegt að láta hana sölsa undir sig meira af landinu að sinni,því þá stendur hún þeim mun betur að vígi í þessari umræddu uppreisn sinni gegn hinu gamla Íslandi.