20.07.1931
Neðri deild: 5. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í C-deild Alþingistíðinda. (2050)

22. mál, Jöfnunarsjóður

Ásgeir Ásgeirsson:

Ég vildi leggja þessu frv. nokkurt liðsyrði áður en það færi til nefndar. Ég get tekið undir það með hv. 4. þm. Reykv., að sú hugsun, sem felst í þessu frv., er algerlega réttmæt, og því þarf að binda þetta alveg með sérstökum ákvæðum, og það á þingið að gera. Þess eru líka dæmi, að slíkt hið sama hefir verið gert annarsstaðar, en sérstaklega höfum við Íslendingar ástæðu til að gera það, því að þótt fjárhagstímabil okkar sé venjulegt almanaksár, er fjárhagsperiodan mörg ár.

Jöfnuðurinn hjá okkur er ekki frá ári til árs, heldur margra ára, og það þarf að koma í veg fyrir miklar sveiflur. Þegar vel árar, er yfirleitt góður hugur í þingmönnum og þá er ekkert sparað, en allt á að gera, en svo þegar harðærin koma, þá hangir sultardropinn úr hverju nefi og þá þykist hver mestur, sem mestan naglaskap sýnir.

Jöfnunarsjóðurinn ætti að geta komið í veg fyrir þetta, þannig að framkvæmdir færu ekki eftir því einu, hvort vel áraði eða illa. Það er oft talað um það, að ríkið eigi ekki að hlaupa í kapp við atvinnuvegina í góðæri og að á erfiðu árunum eigi það að veita sem mesta vinnu. Þetta myndi færast í betra horf með jöfnunarsjóði, enda gætum við haft það eins og ýmsar aðrar þjóðir, þar sem ekki er talið skylt að framkvæma allt það á sama ári, sem samþ. hefir verið í fjárlögum, heldur fresta því til næsta árs, ef þörf þykir.

Ég hygg, að frv. þetta muni skapa nokkurn jöfnuð milli ára og vænti þess fastlega, að nefnd sú, er um málið fjallar, athugi það vel og greiðlega, svo að löggjöf um það mætti komast á sem fyrst. Á þetta atriði eitt legg ég áherzlu, að jöfnunarsjóður jafni framkvæmdir ríkisins milli ára. En öðrum ákvæðum frv. má breyta á ýmsan veg.