10.08.1931
Efri deild: 25. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1257 í B-deild Alþingistíðinda. (2051)

64. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Jón Þorláksson:

Ég geri ráð fyrir, að þessu frv. verði vísað til hv. allshn. Ég stend aðeins upp til þess að leiða athygli hv. n. að því, að með þessu frv. er í fyrsta sinn farið fram á að innlima löggiltan verzlunarstað í annað sveitarfél. Skildinganesþorp er orðið svo fjölmennt, að það hefir rétt á að krefjast þess, að það verði gert að sérstöku sveitarfélagi. Þessi réttur hefir því ekki verið notaður ennþá, en stærð þorpsins hefir leitt það af sér, að íbúarnir hafa orðið að gera ýms félagsleg samtök sín á milli. Málið horfir ekki þannig við, að eingöngu sé um að ræða skipti milli Seltjarnarness og Kjósarsýslu og Rvíkur, heldur er óhjákvæmilegt að gera ráð fyrir því á sanngjarnan hátt, hvernig fari um eignir þær, sem íbúar Skildinganess hafa komið upp og eru þess eðlis, að þær mundu verða hreppsins eign, ef kauptúnið notaði rétt sinn til þess að gerast sérstakt sveitarfélag. Því hafa komið nokkur ákvæði um þetta inn í frv., sérstaklega hvað snertir vatnsveitu Skildinganesþorps. En það er ekki rétt nafn, því það heitir vatnsveita Skildinganeskauptúns, og er það lögfest nafn. Það er hugsanlegt, að það verði ágreiningur út af þessum eignum í einu eða öðru atriði, sem snertir hagsmuni hreppsins og Rvíkur. Er því í frv. gert ráð fyrir, hvernig farið skuli með ágreiningsmál milli Seltjarnarneshrepps og Kjósarsýslu annarsvegar, en Rvíkur hinsvegar. En um úrskurðun tilsvarandi ágreinings milli Rvíkur og vatnsveitufélagsins er komizt tvíræðlega að orði, þar sem stendur, að það eigi að fara með þau „með sama hætti“, en þar sem á að útkljá ágreiningsmálin með gerð, þá sýnist óskýrt, hvað þetta „með sama hætti“ eigi að þýða, hvort það á að vera sami gerðardómurinn eða skipaður á tilsvarandi hátt. En þetta ætti að vera svo skýrt, að enginn vafi gæti á því leikið. Reynslan hefir sýnt, að það hefir verið erfitt að fá útkljáð ágreiningsmál milli Skildinganess og Rvíkur, þar sem ekkert atriði hefir fengizt útkljáð, nema með hæstaréttardómi. Það væri því æskilegt að ákvæðið væri svo skýrt, að það þyrfti ekki að vera 2 ára rekistefna um það, hvernig skilja beri það. Þessu vildi ég skjóta til allshn., sem væntanlega fær frv. til meðferðar.