17.08.1931
Efri deild: 31. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1259 í B-deild Alþingistíðinda. (2060)

64. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Jakob Möller:

Þetta er dálítið óþægilegt, því að sannleikurinn er sá, að mínar brtt. eru þannig vaxnar, að ég hefði gjarnan viljað fá umsögn n. um þær. Þess vegna er nokkur tilhneiging til að taka þær aftur til 3. umr. Hinsvegar hugsa ég mér, verði þær felldar, að koma með tvær brtt. við 3. umr. Af þeirri ástæðu mundi ég ógjarnan vilja taka þessar brtt. aftur til 3. umr. Þó væri hægt að koma með brtt. sem varatill. við 3. umr. Ég hefi satt að segja ekki búizt við, að þessi till. mín á þskj. 314 verði samþ., svo að e. t. v. skiptir ekki miklu, þótt hún komi undir atkv. nú þegar. Eins og hv. þdm. vita, er aðalefni þessara till. að fella burt úr frv. það ákvæði, að Reykjavík verði gert að greiða skaðabætur til Seltjarnarneshrepps og Kjósarsýslu fyrir Skildinganes og Þormóðsstaði. Mér finnst það svo augljóst, að ekki komi til mála að Seltjarnarneshreppur fái nokkrar skaðabætur fyrir að vera lagður undir lögsagnarumdæmi Rvíkur. Skildinganeskauptún mun eiga rétt á því að verða sérstakur hreppur. Og ef Seltjarnarneshr. verður skipt, þá kemur ekki til mála, að Skildinganeshreppur borgi Seltjarnarneshreppi skaðabætur. Þá kemur ekki heldur til mála, að Seltjarnarneshreppur fái skaðabætur, þótt Skildinganes verði lagt undir Rvík. Ef um nokkrar skaðabætur ætti að vera að ræða, þá ættu Seltirningar að gjalda Rvík fyrir það að taka að sér Skildinganeskauptún. Það er fyrirsjáanlegt, að þetta er ekki gróði fyrir Reykjavík, heldur þvert á móti. Hún verður að leggja meira til Skildinganess heldur en sem svarar tekjum af því. Ég er ekki með þessu að andmæla, að Skildinganes sé lagt undir Rvík. Það mælir ákaflega margt með því. En ég vil bara ekki láta ganga um of á rétt Rvíkur og láta bæinn borga fyrir það, sem hann ætti að fá borgun fyrir.

Öðru máli kynni að vera að gegna um Kjósarsýslu, því að það verður líklega ekki hægt að halda fram, að sýslan missi ekki tekjur. En það skilst mér geta fallið undir þau fjárskipti, sem gert er ráð fyrir í frv. En að gjalda beinar skaðabætur held ég sé óheppilegt að ákveða í frv.; það verður hægt að teygja of langt. Annars verð ég að játa mína vanþekkingu á þessu sviði, að ég veit ekki, hvað margvísleg fjárskipti þurfa að fara fram í sambandi við slíka skiptingu. En ég hafði undir þeim kringumstæðum, að þessar brtt. mínar væru samþ., gert ráð fyrir, að n. gæti á milli 2. og 3. umr. tekið til athugunar, hvaða ráðstafanir þyrfti þá að gera, og mætti þá við 3. umr. bera fram brtt. út af þeirri athugun. En það vakir fyrst og fremst fyrir mér, að við sláum föstu, að Reykjavík beri ekki að borga skaðabætur.

Hér eru staddir tveir af nefndarmönnum. og vænti ég, að þeir skýri frá, hvernig þeir líta á málið, hvort nokkra frekari breytingu þurfi á frv. að gera, ef till. verða samþ. Fyrsta brtt. er í raun og veru ekki annað en orðabreyting. 2. brtt. er aðeins nánari skilgreining, sem réttara er að hafa, en engin efnisbreyting.

Ég get bætt því við, að þótt brtt. mínar við 3. gr. verði felldar, er ég ekki fallinn frá að verja rétt Reykjavíkur betur en gert er í frv. Í 3. gr. er mælt svo fyrir, að Rvík skuli hlíta því, sem henni er gert að greiða í skaðabætur, alveg skilyrðislaust. Það tel ég gersamlega óaðgengilegt fyrir Rvíkurbæ. Ég mun þá enn koma með till. í þá átt, að Reykjavík geti hafnað sameiningunni, ef henni er gert að greiða of háar skaðabætur til Seltjarnarneshrepps og Kjósarsýslu.