17.08.1931
Efri deild: 31. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1268 í B-deild Alþingistíðinda. (2066)

64. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Halldór Steinsson:

Mér finnst vera lagt allt of mikið kapp á það í báðum deildum að afgreiða þetta mál. En það einkennilegasta, sem við það er, hefir mér fundizt það vera, að þeir, sem mest kapp leggja á að drífa það í gegnum þingið. geta engar sæmilegar ástæður fært fyrir því. Ég hlustaði á umr. í Nd. fyrir nokkrum dögum, og ég heyrði þar ekki frekar en hér nokkrar frambærilegar ástæður fyrir þessu frv. Ég held því, að þetta mál sé hið mesta hégómamál. Hv. 2. landsk. færði sem ástæðu fyrir sameiningunni brunahættuna þar suður frá. Hann sagði, að brunamál væru þar í mestu óreiðu og Rvík yrði að taka í taumana. En mér finnst, satt að segja, það liggja íbúum þessa hrepps sjálfum næst að koma lagi á slík mál. Sama er að segja um húsnæðisspursmálið, sem hv. þm. ætlaðist líka til, að Rvík færi að sletta sér fram í, en ég get ekki séð, að þessi mál komi Rvíkurbæ það allra minnsta við. Sú eina frambærilega ástæða hefði verið sú, að báðir aðiljar hefðu óskað eftir þessari sameiningu. Þessi ástæða er nú ekki fyrir hendi. Og það er vitað um a. m. k. annan aðiljann, að hann er eindregið á móti þessu máli. Sýslunefnd Gullbringu- og Kjósarsýslu og hreppsnefnd Seltjarnarneshrepps hafa báðar sent mótmæli gegn þessari sameiningu. Þegar svona stendur á, finnst mér rangt af löggjafarvaldinu að sletta sér fram í, og mun ég því greiða atkv. gegn þessu frv.