17.08.1931
Efri deild: 31. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1270 í B-deild Alþingistíðinda. (2068)

64. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Jón Þorláksson:

Hv. 2. landsk. sagði, að þær aths., sem ég hefði gert við frv., sýndu kaldan hug til málsins. Það er þó ekki ástæðan til þeirra, að ég beri kaldan hug til málsins, heldur hitt, að ég vil tryggja réttmæta hagsmuni manna í Skildinganesi eftir að sameiningin hefir farið fram og Reykjavík hefir þar tögl og hagldir. Hv. 2. landsk. sagði, að Rvík myndi halda við þeim vegum þar syðra, sem hún teldi nauðsynlega eftir sínu skipulagi. Ég álít, að úr því að menn hafa lagt vegi þar syðra og byggt við þá, beri Reykjavík skylda til að halda þeim við, og um breytingar á því vegakerfi eigi að gilda sömu reglur og hér, þegar skipulagsbreyt. eiga að fara fram. Þótt breyta eigi vegum hér í Reykjavík, hvílir sú skylda á bænum að halda þeim við, þangað til skipulagsbreytingin er komin á. Ella væri íbúunum óréttur gerður.

Hv. 2. landsk. vildi ekki viðurkenna, að vandkvæði gætu orðið út af ákvæðum frv. viðvíkjandi Vatnsveitufélaginu. Ég hygg, að svo verði litið á, að Vatnsveitufél. sé lagt niður frá því að sameiningin hefir farið fram, en hún á að komast á 1. jan. 1932. Fjárskipti mega hinsvegar dragast til ársloka 1932. Á þessum tíma, sem líður frá sameiningunni til fullnaðarfjárskipta, er hætta á, að skuldir Vatnsveitufél. fari í óreiðu. Það er líka alveg ástæðulaust að vera að draga fjárskiptin svo lengi. Ef sameiningin á að fara fram l. jan. 1932, eiga fjárskiptin að geta farið fram á árinu 1931.

Hv. þm. Snæf. gat um afstöðu Seltjarnarneshrepps í Kjósarsýslu í þessu máli. En það má líka minnast á afstöðu bæjarstj. Rvíkur. Eftir því, sem mér hefir verið sagt af skilorðum mönnum, hefir hún aldrei farið fram á, að þessar jarðir út af fyrir sig væru lagðar undir Rvík, heldur „Seltjarnarneshreppur í Kjósarsýslu“. Ég held, að þessu máli liggi ekki svo á, að það megi ekki fá sæmilegan undirbúning. Mér fyndist rétt að vísa því til bæjarstj. til umsagnar áður en gengið er frá því til fulls.

Ég verð að segja það, að mér finnst óeðlilegt, að ekki skuli hafa verið reynt að ná neinu samkomulagi milli þeirra aðilja, er hér eiga hlut að máli, enda þótt hreppsnefnd Seltjarnarneshrepps hafi lýst yfir andstöðu sinni við málið. Ég vil þó fyrst og fremst leggja áherzlu á það, að löggjöfin sé svo skýr, að ljóst sé, hvaða skyldur Reykjavík tekst á herðar gagnvart íbúunum í hinu innlimaða plássi.