10.08.1931
Efri deild: 25. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 343 í B-deild Alþingistíðinda. (207)

1. mál, fjárlög 1932

0207Jón Jónsson:

Hv. l. og hv. 2. landsk. skutust í eldhúsið og köstuðu kögglum að stj. Hélt ég, að þeir mundu láta sér það nægja, en hv. 1. landsk. lét sér sæma að kasta líka köldum orðum að öllum skattanefndum landsins. Kvað hann skatta hafa verið innheimta í Reykjavík einni með fullum sóma. Held ég, að hann eigi bágt með að standa við þetta. Veit ég ekki betur en að t. d. skattan. í Húnavatnssýslu, sem ég var i, hafi starfað fullvel, og hefi ég í fórum mínum bréf frá hv. 1. landsk., þá er hann var ráðh., þar sem hann lýsir yfir þessu og þakkar skattan. sérstaklega góða framkvæmd. Get ég lagt það bréf fram, ef krafizt verður. (JónÞ: Ég man vel eftir því). Dæmi um framkvæmdirnar í Reykjavík er það, að þegar skipt var um Skattstjóra, komu fram mörg hundruð þús. kr. í framtöldum eignum, sem ekki höfðu verið taldar fram áður. Það var venja hjá okkur að heimta allar skýrslur frá bönkum og sparisjóðum um inneign manna. Þessari reglu held ég ekki, að hafi verið framfylgt í Reykjavík. Virðist það því vera með öllu ómaklegt, þegar hv. þm. er að kasta skeytum að skattan. landsins utan Rvíkur.

Þá get ég ekki látið hjá líða að mótmæla þeim ummælum hv. 1. landsk., að Framsóknarfl. sé ekki fær um að mynda fullgilda stj., þó að hann hafi þingmeirihl. Get ég ekki annað séð en að núv. stj. sé fullkomin þingræðisstj.

Hv. þm. fer því næst hörðum orðum um skýrslu stj., þá er hér hefir verið rætt um. Er skýrslan ekki gallalaus, og er ég ekki fyllilega ánægður með hana sjálfur. Væri máske réttast, að forstöðumenn hverrar starfsgreinar, vegamála, símamála o. s. frv., sendu hver sinn kafla. En ég tel mig heppilegt, að á vissu árabili, t. d. í lok hvers kjörtímabils, sé gefin ýtarleg skýrsla um framkvæmdir ríkisins, svo að landslýðurinn fylgist með, hvað gerist. Ég er því að vissu leyti stj. þakklátur fyrir skýrsluna, því að í henni er ýmis merkilegur fróðleikur, þó hún sé langt frá því að vera gallalaus.