20.08.1931
Efri deild: 34. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1274 í B-deild Alþingistíðinda. (2074)

64. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Jakob Möller [óyfirl.]:

Það er misskilningur hjá hv. 2. landsk., að það sé með till. farið fram á það, að Rvík borgi ekki neitt. Það var í till., sem var borin fram við 2 umr., en var felld. Nú er beinlínis gert ráð fyrir því.

Ég vil benda hv. 2. landsk. á það, að frv. nær einnig til Þormóðsstaða, og einn hv. flm., frv. er eigandi þeirrar jarðar. Ef hann sem landeigandi hefði verið á móti sameiningunni, hefði hann sjálfsagt auðveldlega getað fengið jörð sína undanskilda. Annars skipta Þormóðsstaðir ekki miklu máli í þessu sambandi, en það verður að gera skynsamlega grein fyrir því, hvers vegna eigandi þeirrar jarðar er svona ákafur eftir því, að þessi sameining fari fram.

Hv. 2. landsk. nefndi eiginlega ekki neina aðra ástæðu fyrir frv. en skattflóttamennina margumtöluðu. En það er engin ástæða fyrir frv., ef að er gáð. Auðvitað hafa þessir skattflóttamenn, ef þeir eru nokkrir til, nóga staði til þess að flytja til, þó að þessi sameining verði gerð. Bæjarstj. hefir látið það í ljós, að hún vildi hvorki meira né minna en allt Seltjarnarnes, og þar með liggur yfirlýsing fyrir frá bæjarstj. um afstöðu hennar í þessu máli. Þá fyrst væri það orðið hagsmunamál Reykjavíkur. Ég veit ekkert um afstöðu bæjarstj. til þessa sérstaka frv.; það hefir ekki komið fyrir bæjarstj. síðan ég tók þar sæti.

Hv. 2. landsk. bar enga skynsamlega ástæðu fram gegn brtt. mínum; eina ástæða hans var sú, að ekki mætti tefja málið, en ég vildi gjarnan, að það tefðist frekar um eitt ár heldur en að Reykjavík yrði látin sæta afarkostum í þessum skiptum.