20.08.1931
Efri deild: 34. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1276 í B-deild Alþingistíðinda. (2076)

64. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Jakob Möller [óyfirl.]:

Mér þykir nokkuð undarleg afstaða hv. 4. landsk. í þessu máli. Hann er þess fullviss, að Seltjarnarneshreppi beri engar skaðabætur við þessa sameiningu, og samt ætlar hann að samþ. frv., sem felur í sér ákvæði um skaðabótagreiðslu þessum hreppi til handa. Í þessu er mótsögn, og ég tel það hreinustu óhæfu gagnvart Reykjavík, ef hv. þm. samþ. þetta frv. þrátt fyrir þá skoðun sína á skaðabótunum, sem ég gat um. Hv. þm. vill ennfremur láta Reykjavík borga hvaða skaðabætur sem væru, og er hart fyrir bæjarfélag að verða að hlíta svona lagasetningu. Vilji Reykjavíkurbæjar liggur ekki fyrir í þessu máli. Bæjarstj. hefir látið orð falla um það, að hún vilji fá allt Seltjarnarnes lagt undir Reykjavík, og ég geri ráð fyrir, að hún telji lítils virði að fá Skildinganes eitt. Hv. 4. landsk. hélt því fram, að þetta væri hagsmunamál Rvíkur. Ég er hinsvegar sannfærður um, að þetta verður baggi, þungur baggi á Reykjavík.