24.08.1931
Neðri deild: 40. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1278 í B-deild Alþingistíðinda. (2084)

64. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Ég var fyrir alllöngu búinn að biðja hæstv. forseta um að ætla mér nokkurn tíma til þess að tala í þessu máli, og sé ég, að hann hefir minnzt þess. — Ég skal játa það hreinskilnislega, að ég hafði ætlað mér að gera eigi alllitla grein fyrir sögu og efni þessa máls, í þeim tilgangi, að það dagaði uppi. Ég er ekkert að fara dult með þetta, því að ég álít málið þess eðlis, að enginn þurfi að bera kinnroða fyrir, þó hann reyni að koma málinu fyrir kattarnef á þennan hátt. En nú hefi ég nýlega komizt að því, að nýr kaupsamningur hefir verið gerður í Ed. milli framsóknarmanna og jafnaðarmanna, og er einn þáttur hans sá, að þetta mál skuli ná fram að ganga. Mun samningur þessi aðallega gerður fyrir einn af hv. þm. jafnaðarmanna, því að ekki er hann gerður með hagsmuni almennings fyrir augum. Þar sem hæstv. stj. mun hugað um, að hv. jafnaðarmenn fái ekki annað eins keyri í hendur og þeir fengu hér um daginn, er eitt af málum þeirra var fellt hér í hv. d. fyrir misgáning, þá er ég viss um, að hún muni ekki víla fyrir sér að líta þingið standa einum eða tveimur dögum lengur, til þess að málið nái fram að ganga. Ég vil sterklega vita það, að slíkt baktjaldamakk og slík hrossakaup eigi sér stað um málin, án þess að þm. fái neitt um það að vita. Ef hæstv. forsrh. hefði komið til mín og sagt mér, að hann væri búinn að selja málið, þá hefði ég losnað við það ómak, sem ég hefi haft af því að undirbúa mig undir þessa umr. Mér dettur vitanlega ekki í hug að fara að hefja málþóf og halda 6–10 tíma ræðu, þegar ég veit það með vissu, að ekki myndi annað af því hljótast en aukinn kostnaður fyrir ríkissjóð.

Ég mun því stytta mjög mál mitt og skal aðeins leyfa mér að leggja áherzlu á það, að ég skil ákvæði frv. þannig, eins og þau eru nú, að Reykjavíkurbær skuli greiða Seltjarnarneshreppi og Kjósarsýslu fullar bætur fyrir allt það, sem bærinn sölsar undir sig samkv. þessu frv. Þar á meðal lít ég svo á, að því sé slegið föstu, að bærinn kaupi vatnsveitu þá, sem nú er eign Vatnsveitufélags Skildinganeskauptúns, fyrir kostnaðarverð, að frádreginni hæfilegri upphæð fyrir rýrnun. Verði þessu ekki mótmælt af hv. dm., þá skoða ég það sem viðurkennt af hv. d., að þennan skilning beri að leggja í l. enda mælir öll sanngirni með því.

Þá álít ég og sjálfsagt, að Reykjavíkurbær taki að sér hreppsvegi þá, sem eru á þessum slóðum, og aðra vegi á þeim, sem ætlaðir eru til umferðar almenningi. Ennfremur kaupi bærinn og taki til viðhalds holræsi þau, sem lögð hafa verið í vegi í kauptúninu. Kaupverð holræsanna skal miðað við kostnaðarverð, að frádreginni hæfilegri upphæð fyrir rýrnun, ásamt gjaldi frá lóðareigendum. Mér finnst, að ef frv. þetta á að ná lögfestu, þá sé hér um þær sanngirniskröfur að ræða, að ekki sé ástæða fyrir neinn af hv. þdm. að mótmæla þeim.

Hv. framsóknarmenn, sem hafa löngum þótzt vera helztu formælendur „byggðavaldsins“ í landinu, hafa nú snúizt á sveif með ásælni Reykjavíkur, eins og hún birtist í þessu máli, að fáeinum hv. þm. undanteknum, sem kunnir eru að fastheldni á rétt sveitanna. Þessum byggðavaldsmönnum til uppbyggingar vil ég henda á brtt., sem kom fram frá formælanda Reykjavíkur í Ed. og fór fram á það, að Seltjarnarneshreppur skyldi vera bundinn við úrskurð gerðardóms, en Reykjavíkurbær ekki. Reyndar skal ég ekkert vera að finna að þessari till., fyrst ég fékk því ekki framgengt, að báðir aðilar skyldu vera óbundnir. En till. þessi sýnir mætavel hina hóflausu ásælni Reykvíkinga í eignir og lönd Seltjarnarneshrepps.

Ég held, að það séu ekki fleiri till., sem komið hafa fram í Ed. og ég vildi leiða athygli hv. dm. að. Ég skal aðeins benda á, að nokkur breyt. hefir verið gerð á skipun gerðardómsins, og tel ég þá breyt. frekar til batnaðar.