10.08.1931
Efri deild: 25. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 345 í B-deild Alþingistíðinda. (209)

1. mál, fjárlög 1932

Jón Þorláksson:

Hæstv. forsrh. greip til þess bragðs að láta sem hann hefði ekki skilið, hverju ég hafði fundið að. Þótti honum sem ég hefði ekki yfir neinu að kvarta, því að ekkert væri rangt eftir mér haft í skýrslunni. Get ég fullvissað hæstv. ráðh. um það, að þegar ég kem með aðfinnslur út af þessu riti, er ég ekki að gera það fyrir sjálfan mig. Ég er þm. þjóðarinnar og er að verja sóma þjóðarinnar, þegar ég er að varna þess, að þjóðin verði með þögninni samsek þeirri stj., sem hefir framið aðra eins óhæfu og þessi skýrslugerð er. Það skiptir því engu máli, hvort eitthvað er rangt haft eftir mér fremur en eftir einhverjum öðrum. Ég get og ekki munað, hvað ég kann að hafa sagt á kosningafundi norður á Sveinsstöðum fyrir 5–6 árum, en hitt get ég séð, hvað ég hefi skrifað í aths. við fjárlagafrv. það, sem lagt var fram um það leyti, sem þessar fyrirætlanir um veg frá Faxaflóa til Húsavíkur komu fyrst fram. Hefði hver sæmilegur skýrslugefandi og frekar farið eftir þessu en verið að hlaupa eftir einhverjum hlaðafregnum af þessum fundi, eins og ég býst við, að gert hafi verið um þessi ummæli, sem höfð eru eftir mér í skýrslunni. Og ég átaldi það, að það, sem sagt er í framhaldi af þessum tilvitnuðu ummælum mínum, er rangt. Þrátt fyrir mikla fjárnotkun til vegalagninga og annars, er þessi umræddi vegur skemmra á veg kominn en gert er ráð fyrir í áætluninni. Skýrslan segir það gagnstæða, og er engum blöðum um það að fletta, af hverju það er gert, því að þessu riti er fyrst og fremst ætlað að vera lofgerð um stj., og til þess að unnt sé að ná því marki, verður að gera meira úr framkvæmdum hennar en satt og rétt er.

Þá tókst hæstv. ráðh. ekki fimlega að láta sem hann hefði ekki skilið, að hverju ég var að finna að því er snertir berklavarnakostnaðinn. Ég fann að því, að í skýrslunni er látið líta svo út, sem berklavarnakostnaðurinn hafi hækkað um nærri ½ millj. kr. á árinu 1927 frá því, sem hann var 1926, og svo er sagt, til þess að gylla stj., sem á að gylla fyrir öll verk á þessu tímabili, sem skýrslan nær yfir, að henni hafi tekizt að lækka kostnaðinn um nálega þessa upphæð. Fölsunin er hér sú, að meira en eins árs berklavarnakostnaður er talinn undir árinu 1927, af því að þá kom meira til greiðslu, ekki vegna umbóta á löggjöfinni eða breytinga á l. að því er snertir hinn eiginlega kostnað á sjúkrahúsunum, heldur vegna tilfærslu á gjalddögum þeim, sem greiðslur á þessum kostnaði áttu að fara fram á. Það er bein fölsun að tala um, að slík lækkun hafi átt sér stað. og þegar þessi tilfærsla er komin í kring, eru árleg útgjöld jöfn hinum árlega tilkostnaði við berklavarnirnar. Slíkur samanburður væri því réttur að því er snertir árin 1926 og 1929, þegar tilfærslan er um garð gengin. Get ég ímyndað mér, að slíkar missagnir sem þessi stafi af fákunnáttu. Að einhver aðvífandi maður, t. d. bóndi norðan af landi, hafi verið fenginn til þess að semja þessar skýrslur, og er ekki nema eðlilegt, að einhverra missagna verði vart hjá slíkum aðvífandi manni, og það því fremur, sem ætla má, að honum hafi verið kunnugt um tilgang ritsins og að fyrst og fremst átti að varpa gyllingarljósi yfir þá stj., sem falið hafði honum þennan starfa. En það, sem vægast er hægt að segja í garð hæstv. forsrh. út af þessum missögnum, er það, að það er ófyrirgefanlegt kæruleysi af stj. að láta þetta svo frá sér fara. Því að það var ekki nema út í loftið, þegar hæstv. ráðh. var að visa til þess, að á „næstu blaðsíðu“ stæði, að breytingar á berklavarnalögunum 1927 hafi leitt til þessarar lækkunar á kostnaðinum af framkvæmd þeirra l., því að það hefir engin slík lækkun átt sér stað, eins og ég hefi sýnt fram á.

Þá hneykslaðist hæstv. forsrh. á því, að ég hefði verið að vitna í „einkasamtal“, sem ég hefði við hann átt. Það er nú svo guði fyrir að þakka, að mörg einkasamtöl hafa ekki farið okkar á milli síðustu árin, og það samtal, sem ég vitnaði til í fyrri ræðu minni, var ekki einkasamtal. Sjálfstæðisflokkurinn hafði falið mér og Alþýðuflokkurinn hv. 2. landsk. að fara á fund hæstv. forsrh. og bera fram við hann ákveðin tilmæli út af þingrofinu í vor. Þegar við höfðum borið fram erindi okkar, ég og hv. 2. landsk., bauð hæstv. ráðh. okkur að tala við sig almennt um málin, og bað hæstv. ráðh. mig þá að flytja ákveðin skilaboð til flokks míns, sem ég var svo heppinn að láta hann afhenda mér skrifleg. Þetta samtal, sem ég nú hefi skýrt frá, var því ekkert einkasamtal, heldur var hér um erindisrekstur að ræða milli hæstv. ráðh. og flokks hans og hinna flokkanna í landinu, og hefir því allur landslýður heimtingu á að fá að vita, hvað fram fór.

Hæstv. forsrh. hneykslaðist einnig á því, og hv. 3. landsk. reyndar líka að sumu leyti, að ég hafði sagt það, að skattalögin væru hvergi framkvæmd í landinu með fullum sóma, nema hér í Reykjavík. Ég stend við þetta. Reykjavík er eini staðurinn á landinu, þar sem framkvæmd skattalaganna getur talizt með fullum sóma. og er þetta ekki sagt sem álösun um skattanefndir landsins yfirleitt, heldur á þetta rætur sínar í þeirri tilhögun, sem hér er í þessum efnum, þar sem er skattstjóri með sérstakri skrifstofu, því að það er sú eina tilhögun, sem getur leitt til þess, að skattalögin verði framkvæmd með fullum sóma. Ég veit það, að skattanefndirnar yfirleitt gera sitt bezta í þessum efnum, og ég man vel eftir því bréfi, sem ég skrifaði skattanefndinni, sem hv. 3. landsk. var i. En mér er það fullkomlega ljóst frá starfi mínu sem fjmrh., að yfirleitt er ekki hægt að framfylgja skattalöggjöfinni frá 1920–21 í sveitum landsins, svo að sagt verði, að það sé gert með fullum sóma. Skattalöggjöfin á ekki við sveitalífið eins og það gerist hér hjá okkur. Hún er miðuð við það, sem á útlendum málum er kallað peningaökonomi, eða viðskipti, sem fara fram í peningagreiðslum, þannig að tekjur og gjöld manna koma ætíð fram í peningum. Er langt frá því, að svo sé háttað í sveitunum, eins og allir þekkja, en af því leiðir það, að skattalögin verða ekki framkvæmd þar með fullum sóma, þrátt fyrir bezta vilja allra þeirra, sem vinna að þessu. Í kaupstöðum landsins er ekki þessu til að dreifa, því að þar taka menn tekjur sínar yfirleitt í peningum, en tilhöguninni er að öðru leyti svo háttað þar, að skattalöggjöfin er ekki framkvæmd þar heldur með fullum sóma, eins og er og hefir verið gert hér í Rvík. Skattaupphæðin hér, þar sem fyrirkomulagið er fullkomnast, talar og sínu máli og er gott sönnunargagn fyrir því, sem ég sagði um þetta. Með þessu vildi ég ekki álasa einu né neinu. Ég veit það, að skattanefndir landsins vinna yfirleitt sitt verk eftir beztu getu, en undir kringumstæðum, sem gera þeim ómögulegt að ná sama árangri og náðst hefir hér í Reykjavík, þar sem sérstakur skattstjóri er og starfar að þessum málum. — Mér þótti hinsvegar vænt um að heyra það, að hv. 3. landsk. vildi ekki verja þessa bók, og vildi vona, að svo væri um fleiri úr flokki hæstv. stj., því að það gæti orðið stj. aðvörun við því að leiða yfir þjóðina á ný aðra eins niðurlægingu sem samning og útsending þessa rits er, á kostnað ríkisins og gefið út af sjálfri ríkisstj.