19.08.1931
Neðri deild: 33. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 74 í C-deild Alþingistíðinda. (2104)

22. mál, Jöfnunarsjóður

Haraldur Guðmundsson [óyfirl.]:

Ég vil benda hv. þm. á, út af skrafi hans um tekjuhalla, að, að sjálfsögðu er miðað við 12 millj. kr. tekjur í fjárl. Af samþ. þessa frv. leiðir því það, að það yrði að taka upp í fjárl. tilsvarandi útgjaldaupphæð á sama hátt og tillagið til Búnaðarbankans, og yfirleitt tillög til slíkra framkvæmda, sem lögbundnar eru. Auðvitað er þetta ekki komið inn í fjárlagafrv. ennþá af því að l. eru ekki komin á. Hinsvegar þegar tekjur fara fram úr áætlun, þá kemur sjóðaukningin af sjálfu sér. Ég undra mig á því, að hv. þ.m. skuli ekki skilja þetta. Frv. okkar gerir ráð fyrir, að fé renni í sjóðinn þegar tekjur eru komnar í visst hámark. En brtt. ganga í þá átt, að þegar tekjur fara fram úr lögbundnum gjöldum, þá fyrst fái sjóðurinn eitthvað. Á þessu er mikill munur, sem hv. þm. hlýtur að skilja.

Um ákvæði 3. brtt., sem hann drap á, skal ég ekki deila við hv. þm. Ég tek trúanlega skýringu hans. Annars er ákvæðið næsta einkennilegt og óvanalegt.

Um samninga Íhalds og Framsóknar er óþarft að tala. Það sýnir sig í hverju einasta máli. (EA: Er það í tóbakseinkasölunni?). Ég tók það líka fram áðan. Það er eina málið, svona rétt til að brýna brandana og menn týni ekki niður að skilmast. Annars er bezta samkomulag hjá Íhöldunum báðum, sveita og kaupstaða. Ég veit, að hv. þm. fellur illa, að þetta staðfestist hvað eftir annað En þeir verða við það að una, úr því að þeir geta unað við samninga á annað borð. Ég verð að taka mér í munn orð hv. 3. þm. Reykv., sem sagði í dag: Ég sé ekki, til hvers það er fyrir svokallaðan Sjálfstæðisflokk að stilla upp sérstökum frambjóðendum, þegar eina niðurstaðan er, að þingmenn þess flokks hjálpa framsóknarmönnum að koma fram sínum málum. — Það er ekki ólaglegt fyrir stjórnarandstæðingaflokk að byrja á þessum grundvelli.