22.08.1931
Efri deild: 39. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í C-deild Alþingistíðinda. (2113)

22. mál, Jöfnunarsjóður

Jón Baldvinsson:

Ég stóð að þessu frv. upprunalega, þó að ég væri ekki beinlínis flm. Á leið sinni gegnum Nd. hefir frv. tekið miklum stakkaskiptum. Eftir þeim undirtektum, sem það fékk hjá þingflokkunum í byrjun, skildist mönnum það, að þeir væru fúsir á að samþ. það að mestu leyti eins og það var. En nú hafa verið gerðar svo gagngerðar breyt. á frv., að segja má, að það hafi verið þurrkað út, sá upprunalegi tilgangur þess eyðilagður, svo að nú er ekkert eftir nema nafnið, sem þó er breytt. Menn skyldu hafa ætlað, að sérstaklega andstöðuflokkur stj. hefði gjarnan viljað samþ. þetta frv., sem hafði í för með sér takmarkanir á eyðslu stj., en það hefir sýnt sig hér sem í öðru, að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn eru sammála um öll aðalmál þingsins.

Þetta frv. er kallað „frv. um jöfnunarsjóð“, en það er nú orðið rangnefni. Þessi sjóður ætti að heita sáttmálasjóður Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Það stóð upprunalega í frv., að þegar tekjur ríkissjóðs færu fram úr áætlun, skyldi leggja ákveðinn hluta þeirra í þennan sjóð, en nú á að leggja í hann þær tekjur, sem eru umfram óhjákvæmileg og lögbundin útgjöld, og ætla ég, að hann muni seint myndast, ef á að fara eftir því ákvæði óbreyttu. Tilgangurinn var að koma jöfnuði á verklegar framkvæmdir ríkisins og atvinnu við þær frá ári til árs. Nú er honum ekki ætlað annað en að greiða tekjuhalla á fjárl., sem er aðalhlutverk sjóðsins eftir 3. gr. frv. Fari svo, að sjóðnum safnist fé, þá á hann ekki að vinna sama starf og svipaðir sjóðir annarsstaðar, þar sem fyrirmyndin er tekin, nefnilega í Svíþjóð, heldur á hann að greiða aukaafborganir af skuldum ríkissjóðs. Fjmrh. er skylt að nota hann til þess.

Mér skildist á hv. 1. landsk. við umr. um verðtollinn, að þá hefði hann gert einhverja kröfu til Framsóknarflokksins, að hann samþ. einhverjar takmarkanir á fjáreyðslu stj., annaðhvort í fjárlögum eða þá í almennum lögum, og skildist mér hann eiga þar helzt við jöfnunarsjóð ríkisins. En nú, þegar þetta plagg kemur frá Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum, þá er ekkert orðið úr þessari hugmynd. Það er ekkert nema orðagjálfur eftir af frv. þessu, sem átti að jafna framkvæmdir ríkisins frá ári til árs, eftir því hvernig áraði fyrir ríkissjóði, og eftir því hvernig á stæði fyrir atvinnuvegunum. Það átti einnig að verða hlutverk hans að veita fé til verklegra framkvæmda hjá sveitar- og bæjarfélögum, þegar harðnaði í ári. Það er líka þurrkað út, og það, sem eftir er, er ekkert nema kák, sama heimild eftir sem áður fyrir stj. að eyða tekjum ríkissjóðs eftir því sem henni sýnist. Það sýnir sig nú, að þrátt fyrir öll stóru orðin hjá sjálfstæðismönnum um eyðslu Framsóknarflokksstj., þá hafa þeir ekki viljað koma á hana því hafti í þeim efnum, sem jöfnunarsjóðurinn hefði orðið í þeirri mynd, sem hann átti að hafa upprunalega.

Það má vel vera, að frv. hefði verið fellt í Nd., ef sjálfstæðismenn og Alþýðuflokksmenn hefðu staðið saman um það, en það sýnir sig, að brtt. fjhn. um það, hvernig frv. skyldi orðað, voru samþ. orði til orðs af báðum flokkum gegn atkv. jafnaðarmanna, svo að nú er það orðið að öðru frv. Tilgangur frv. þurrkaður út og nafninu stolið, svo að nú er frv. tómt „humhug“. Ég mun því ekki ljá mitt atkv. til þess að það nái fram að ganga.