22.08.1931
Efri deild: 39. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í C-deild Alþingistíðinda. (2114)

22. mál, Jöfnunarsjóður

Jón Þorláksson:

Ég vil ekki játa andmæli hv. 2. landsk. gegn þessu frv. vera það eina, sem um það heyrist mér við 1. umr. Ég álít, að frv. eins og það nú er feli að talsverðu leyti í sér þær grundvallarreglur, sem þarf að fylgja til þess að fjármálastjórnin verði heilbrigð hér í okkar landi, þar sem afkoma atvinnuveganna og ríkissjóðs er svo mismunandi frá ári til árs. Ég álít, að frv. hafi tekið stórkostlegum umbótum frá því, sem það var fyrst þegar það kom fram, þó að það geti að vísu verið nokkurt álitamál um ýmis atriði, hvort ekki mættu ennþá betur fara.

Frv. ætlar jöfnunarsjóði þrjú verkefni, sem mér finnst öll eðlileg verkefni fyrir slíkan sjóð, svo að ekkert megi undan ganga. Fyrsta að greiða tekjuhalla, ef hann verður vegna þess að tekjur bregðist eða lögbundin og óhjákvæmileg útgjöld verði meiri en tekjur. Þá greiðir jöfnunarsjóður tekjuhallann, svo framarlega sem sjóður ríkissjóðs nægir ekki til að standast hann.

Í öðru lagi á sjóðurinn að jafna verklegar framkvæmdir ríkissjóðs þannig, að á erfiðu árunum, þegar ekki þykir fært að veita fé samkv. venju til verklegra framkvæmda, þá geti þessar framkvæmdir orðið fyrir hjálp jöfnunarsjóðs eins og meðaltal síðustu 5 ára, þó svo, að til þess að þessar greiðslur geti farið fram, þá þarf fjárlagaákvæði.

Þriðja verkefnið er að borga aukreitis af ríkisskuldum. Ég er sannfærður um, að lagaákvæði slíkt sem þetta er eitt af því bezta, sem við getum gert til þess að styrkja okkar lánstraust og efla ríkissjóð fjárhagslega. Það hefir verið gert einu sinni á góðæristímabili að greiða aukreitis afborganir af ríkisskuldum. Það var 1924–1925. Það fór ekki framhjá mér og ég veit, að margir urðu varir við það, hvílík gerbreyting varð á lánstrausti okkar utanlands vegna þessara aukaafborgana okkar. Lánstraust okkar var mjög bágborið um áramótin 1923–1924, en eftir tvö ár skipti í tvö horn um þetta, og það voru þessar aukaafborganir af ríkisskuldunum, sem höfðu valdið því framar öllu öðru.

Ég er þess vegna í aðalatriðunum ánægður með frv. eins og það er og er sannfærður um, að það verður okkur til hagnaðar, ef það verður að lögum og komandi stj. framfylgja því eins og það er.