10.08.1931
Efri deild: 25. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 356 í B-deild Alþingistíðinda. (212)

1. mál, fjárlög 1932

Forsrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Það voru aðallega fáein orð, sem ég vildi sagt hafa út af ræðu hv. 1. landsk., en bæði var það, að hann var nú mun hógværari en áður, og auk þess er hann búinn að tala sig dauðan, svo ég mun ekki lengja mál mitt ýkjamikið. Ég ætla að taka þá þrjá punkta, sem hv. þm. drap á, en það er sameiginlegt með þeim öllum, að það hefir komið fram, að rétt var með farið í skýrslunni. (JónÞ: Það er ekki að furða, þótt svona menn gefi rangar skýrslur!). Það er upplýst, að rétt er með farið hvað vegunum viðkemur, og um berklavarnakostnaðinn, að það er alrangt hjá hv. þm., að þar sé um fölsun að ræða, en þessi breyt., sem þar hefir orðið á, orsakast vitanlega af aðgerðum þings og stj., bæði þeirrar fyrrv. og núv. Hér er ekki um neina löggjöf að ræða, heldur aðeins um strangari ráðstafanir við að framfylgja lögunum heldur en áður voru gerðar. Hv. 2. þm. Skagf., þáv. ráðh., hafði gefið út bréf um það, hvernig læknunum skyldi borgað, og eftir því var farið, með þeim árangri, að útgjöldin hafa farið lækkandi með ári hverju.

Loks hefir hv. 3. landsk. rekið ofan í hv. 1. landsk. ummæli hans um skatta í sveitum, og má ég því vel við una að því leyti.

Hv. þm. sagði, að það væri megn niðurlæging fyrir þjóðina að fá slíka bók senda út sem þessa, og ég get sagt það með hv. 1. þm. Reykv., að þau ummæli, sem hann vitnaði í, eru með öllu óviðunandi í slíku riti, en vitanlega er bókin ekki alfullkomin, og má af henni læra, hvernig eigi að rita slíkar bækur. (JónÞ: Hvernig ekki á að rita slíkar bækur). En þar er margt mjög myndarlega gert. Hún er nátturlega ekki fullkomin fremur en aðrar bækur, sem gefnar eru út.

Út af því, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði um það, hver bæri ábyrgð á þessari bók, vil ég taka það fram, að hún var fullgerð og búið að ganga frá henni að öllu, bæði máli og myndum, áður en Sigurður Kristinsson tók við atvmrh. embættinu, svo að hv. þm. þarf ekki að beina neinum aðfinnslum til hans út af þessari bók, hann ber enga ábyrgð á henni.