20.07.1931
Neðri deild: 5. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í C-deild Alþingistíðinda. (2123)

29. mál, opinber vinna

Flm. (Héðinn Valdimarsson):

Þetta frv. lá fyrir síðasta þingi, en það fór líkt um það og meiri hl. þeirra mála, sem þá lágu fyrir og ýmist voru felld eða drepin með þingrofinu. Frv. þetta var fellt við 1. umr., svo að það virðist sem mikill hluti Nd., eins og hún var þá skipuð, væri nokkurnveginn viss um, að þetta væri mál, sem ekki mætti ræða í þinginu. Og hvað er það þá, sem er í þessu frv.? Það er ekkert annað en það, að verkamönnum, sem eru í vinnu hjá ríkissjóði, séu greidd sömu laun sem atvinnurekendur greiða þeim eftir kauptaxta verklýðsfélaganna, og að vinnutíminn sé ekki lengri en 9 kl. stundir á sólarhring og venjulegur tími til kaffidrykkju og matar. Mig undrar það mikillega, að einir 7 þm. á síðasta þingi hafa greitt atkv. með því, að frv. næði fram að ganga. Það er eins og verkafólkið hafi engin réttindi, þegar ríkissjóður er annarsvegar, og hið eina, sem ríkissjóður eigi að gera í þessum málum, sé að halda niðri kaupgjaldi verkafólksins. Með öðrum orðum, að vegavinna, brúargerðir og aðrar opinberar framkvæmdir séu notaðar til þess að hjálpa atvinnurekendum, sem vilja greiða kaupgjald undir taxta verklýðsfélaganna. Ríkisvaldið verði verkfæri í höndum stóratvinnurekendanna í baráttu þeirra við verkalýðinn. Þessi opinbera vinna, s. s. vega- og brúargerðir, hefir afarmikla þýðingu fyrir verkafólkið úti um land, þar sem mikill hluti manna í smákauptúnunum verður að treysta á hana um sumartímann, en tiltölulega litla þýðingu fyrir reykvískan verkalýð. Sú opinber vinna, sem unnin er undir handarjaðri samtaka verkalýðsins í Reykjavík, verður heldur ekki unnin undir taxta. Félögin eru nægilega sterk til að verja meðlimi sína hér, og barátta gegn þessu frv. er því einungis til þess, að verkalýðurinn í kauptúnunum úti um land sæti lökustum kjörum hjá hinu opinbera. Er það harla einkennileg „byggðaást!“ þingmanna utan af landi að vilja fyrst og fremst níðast á íbúum síns eigin kjördæmis.

Ég ætla ekki að tala mikið um þetta mál, nema ef til andsvara skyldi koma. Ég vænti, að frv. nái í þetta sinn að ganga til 2. umr. og síðan út úr d. Ég hefi ekki á móti því, að málinu sé vísað til n., ef einhverjir æskja þess, en hins vil ég óska, að atkvgr. fari fram að viðhöfðu nafnakalli.