20.07.1931
Neðri deild: 5. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í C-deild Alþingistíðinda. (2126)

29. mál, opinber vinna

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Mér þykir að ýmsu leyti vænt um, að hv. 1. flm. telur það ekki neina nauðsyn að láta þessi ákvæði felast í frv., sem hér er til umr., og sennilega verður þeim ákvæðum breytt, ef frv. nær fram að ganga, en að öðru leyti get ég gjarnan látið í ljós þá skoðun, að það er dálítið einkennilegt, ef á að taka upp þá reglu að láta hina vinnandi stétt í landinu eingöngu ákveða, hvaða kaup henni er goldið.

Hv. flm. hefir komið fram með þá kenningu, að atvinnurekendur eigi ekki að ráða kaupgjaldinu, en hann fer út í sömu öfgarnar, þegar hann segir, að verkafólkið eigi algerlega að ráða því. Þetta verður að temprast, en ég sé ekki, að þetta frv. geri neinar ráðstafanir til þess, að slíkt jafnvægi geti haldizt, sem nauðsynlega þarf að vera, því að eins og það er órétt, að vinnuveitandinn sé einráður um, hve há laun hann greiðir, eins er það órétt, að verkafólkið ráði því alveg án tillits til annars, sem þar þarf að koma til greina.