21.07.1931
Neðri deild: 6. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 90 í C-deild Alþingistíðinda. (2134)

32. mál, læknishéraðasjóður

Flm. (Vilmundur Jónsson):

Þetta frv. var flutt á síðasta þingi fyrir tilmæli mín, en náði þá ekki fram að ganga. Hugsunin, sem liggur á bak við það, er sú, að fé það, sem áætlað er til launa embættismanna úti um landið, sé veitt héruðunum, sem þjónustu þeirra eiga að þiggja, en ekki embættismönnunum persónulega. Þegar hérað er læknislaust, er því ekki við eigandi, að ríkissjóði sparist fé við það, heldur ber læknishéraðinu að fá launin eftir sem áður. En rétt þykir að binda féð á þann hátt, að það komi héraðinu til nota í þeirri sömu grein, sem það upphaflega var ætlað til, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv.

Yfirleitt hefir þetta frv. fengið góðar undirtektir. Landlæknir hefir mælt mjög eindregið með því við þingið í fyrra, og um það hefir verið skrifað lofsamlega í Læknablaðið. Mér er einnig, kunnugt um, að það hefir vakið talsverða athygli úti um landið og orðið vinsælt, einkum í þeim héruðum, sem verið hafa læknislaus eða óttast að verða það. Og nú, er tilsvarandi ákvæði hafa verið sett í það um yfirsetukonurnar, mun því verða veitt enn almennari athygli. Alþingi eitt hefir brugðizt illa við frv. Á síðasta þingi var málinu vísað til nefndar, en svo einkennilega varð raunin á, að meiri hl. n. lagði til án alls rökstuðnings, að það yrði fellt, en Alþýðuflokksmaðurinn í n. mælti einn með því að það yrði samþ. Ég mælist til þess, að frv. verði vísað til 2. umr. og hefi ekkert á móti því, að það fari til allshn., þar sem það var síðast, en vonast eftir, að hv. n. veiti því skjóta afgreiðslu og þannig, að okkur Alþýðufl.mönnum, sem engan fulltrúa eigum í nefndinni, gefist kostur á að tala við hana um málið.