21.07.1931
Neðri deild: 6. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 91 í C-deild Alþingistíðinda. (2137)

34. mál, rekstrarlánafélög fyrir bátaútveg og smáiðju

Flm. (Jóhann Jósefsson):

Þetta frv. lá fyrir síðasta þingi og var búið að afgr. það frá sjútvn. þegar þingið var rofið, en nefndin var ekki sammála um, hvernig það skyldi afgr. Meiri hl. n. lagði til, að frv. yrði samþ., en minni hl. var aftur á móti klofinn. Vildi annar hluti hans vísa málinu frá með dagskrá, en hinn, þ. e. a. s. fulltrúi jafnaðarmanna, samþykkja það með töluverðum breyt.

Sá hlutinn, sem vildi vísa málinu frá með rökst. dagskrá, sagði, að undanfarin ár hefðu lánsstofnanirnar verið svo efldar, að þær myndu geta fullnægt landsmönnum um nokkur ár, og því taldi hann enga þörf á lánsstofnun fyrir smábátaútveginn út af fyrir sig. Við í meiri hl. n. álítum þetta ekki rétt, sérstaklega þegar þess var gætt, að þegar hér voru samþ. lög um búnaðarbankann, þá var það mjög á baugi, hvort ekki myndi rétt að lána til smábátaútvegs og smáiðju, sem samfara væri sveitabúskapnum, en það var fellt með þeirri forsendu, að stj. ætlaði sér að gera sérstakar ráðstafanir viðvíkjandi smábátaútveginum. Við flm. höfum þó ekki orðið varir við neina sérstaka breyt. frá því, sem þá var, nema ef telja skyldi að Íslandsbanka var breytt í Útvegsbanka, en um hann er nú það að segja, að hann mun hafa nóg á sinni könnu, þótt sérstök lánsstofnun sæi um þarfir smábátaútvegsins. Útvegsbankinn hefir orðið að taka við gömlum skuldbindingum Íslandsbanka og fullnægja þeim eftir því, sem lög standa til, og m. a. af því getur hann ekki hætt úr rekstrarfjárþörfinni, og eru því enn óuppfyllt þau loforð, sem hæstv. forsrh. gaf á þinginu 1929.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta mál, því að það hefir verið rætt töluvert undanfarið, en vil aðeins fullyrða, að smábátaútvegurinn á kröfu á því, að þingið sjái honum fyrir rekstrarfé, miðað við það, sem gert hefir verið fyrir aðrar atvinnugreinir í landinu. Að endingu vil ég sérstaklega benda á það, að hér er aðeins farið fram á að ábyrgjast lán frá ári til árs, en ekki til lengdar, svo að þar munar æðimiklu.

Ég vil mælast til, að frv. verði vísað til 2. umr., og af því að sjútvn. hefir áður haft um málið að fjalla, mun rétt að láta það ganga þá leið.