21.07.1931
Neðri deild: 62. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í C-deild Alþingistíðinda. (2141)

36. mál, Flugmálasjóður Íslands

Flm. (Jón Auðunn Jónsson):

Þetta frv. var flutt hér á síðasta þingi, en náði þá ekki afgreiðslu. Frv. þetta er flutt í því augnamiði að létta svolítið á sjávarútveginum, eða réttara sagt síldarútveginum. Hann er nú svo nauðulega staddur, að full nauðsyn virðist vera á því, að honum sé gert nokkru hægara fyrir; en þetta er aðeins lítið skref í áttina.

Á síðasta vetri báru fulltrúar Norðlendinga á Fiskiþinginu fram þá till. fyrir hönd norðlenzkra útgerðarmanna og sjómanna, að gjald það, sem hér um ræðir, væri með öllu niður fellt. Fiskiþingið vildi þó ekki gera það að sinni till., og er því þessi millileið farin, að lækka gjaldið um helming og fluginu verði haldið áfram þrátt fyrir þessa ívilnun. Ég veit, að hv. dm. geta orðið sammála um að veita þessum nauðulega stadda útveg þessa litlu ívilnun. Óska ég, að máli þessu verði að lokinni umr. vísað í fjhn. (ÓTh: Sjútvn.; þar hefir það verið áður). Ég get þá fallizt á það.