23.07.1931
Neðri deild: 10. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 94 í C-deild Alþingistíðinda. (2145)

43. mál, tekju- og eignarskattur til atvinnubóta

Flm. (Jónas Þorbergsson):

Þetta frv. er borið fram vegna þess óvenjulega ástands, sem nú ríkir í landinu. Heimskreppan hefir þegar gert allmikið vart við sig í atvinnulífi þjóðarinnar, svo að mjög hefir dregið úr framkvæmdum, bæði hins opinbera og einstaklinga.

Nú vinna færri menn en áður í þágu ríkisins við húsagerð, vegagerð og aðrar slíkar framkvæmdir. En einkanlega er munurinn mikill, ef miðað er við síðastl. ár, enda höfðu menn þá með höndum allan undirbúning alþingishátíðarinnar og vegagerð þá, sem af henni leiddi.

Að sama skapi hefir dregið úr framkvæmdum einstaklinga. Ennfremur búa atvinnuvegir vorir við svo þröngan markað og svo slæmar horfur, að það hefir kippt úr öllum framkvæmdum.

Af öllu þessu leiðir, að atvinnuleysi er meira nú en áður. Til samanburðar má geta þess, að atvinnuleysisskýrslur frá síðatstl. ári, sem gerðar voru 1. febr., sýna, að þá voru skráðir 68 atvinnulausir menn í landinu, en l. febr. á yfirstandandi ári voru þeir 1026. Hefir þá tala atvinnulausra manna 15-faldazt á þessu eina ári.

Þessi stórkostlegi vöxtur hefir ekki numið staðar, heldur fer hann hraðvaxandi, og má því til glöggvunar nefna, að við skrásetningu 1. ág. í fyrra létu þrír menn skrá sig sem atvinnulausa. Nú hefir engin slík athugun verið gerð. En um miðjan júlí síðastl. létu verkamannafélagið Dagsbrún og Sjómannafélag Reykjavíkur fara fram slíka skráningu, og komast að þeirri niðurstöðu, að 268 menn væru nú atvinnulausir í Rvík einni saman og þar af margir fjölskyldumenn. Ef miðað er við atvinnuleysisskráningu fyrra árs, má gera ráð fyrir, að í landinu sé tala atvinnulausra tvöföld tala þeirra manna, sem atvinnulausir eru hér í Reykjavík, eða á 6. hundrað. Ennfremur má búast við því, að margir komi ekki til skráningar, sökum þess, að þeir menn, sem hafa nokkra atvinnu, láta ekki skrá sig, og aðrir líta svo á, að skrásetningin hafi enga verulega þýðingu og muni ekki leiða til neinna atvinnubóta.

Það mun einsdæmi, að svona margir menn gangi atvinnulausir um hábjargræðistímann, enda má gera ráð fyrir því, að þegar haustar að, verði þeir enn fleiri, og margir muni þá búa við verulegan skort eða jafnvel fulla neyð. Það virðist því fullkomin ástæða til að ráða bót á þessu óefni, með því að gera þær ráðstafanir, sem tiltækilegar mættu þykja.

Það er alkunn reynsla, að hvert það fyrirtæki, sem stjórnað er með forsjá og hyggindum, leggur kapp á að afla sér varasjóða og tryggingarfjár. En á bak við atvinnuvegi landsmanna standa engir slíkir sjóðir, og þess vegna er það, að þegar á bjátar, kemst allt í uppnám og horfir til fullra vandræða, og þeir sjóðir, sem ýms atvinnufyrirtæki afla sér, ganga fljótt til þurrðar. Skortir mikið til, að þau orki því að bera atvinnuvegina yfir örðugleika kreppuáranna.

Ég hefi áður, við opinberar umr. um landsmál. minnzt á þá nauðsyn, að stofnaður yrði varasjóður atvinnuveganna. Þessi sjóður ætti að fá tekjur sínar í góðærum sem atvinnu- og gróðaskatt. Og hlutverk hans yrði hið sama og fleygihjóls í aflvél, sem ber hreyfiarma hennar yfir dauða punkta.

Meðan engin slík trygging er fyrir hendi, virðist það vera sanngirnismál, að þeir, sem hlotið hafa afgangseyri í góðærunum, láti eitthvað af hendi rakna við þá menn, sem hafa ekkert borið úr býtum nema nauðþurftir sínar, og eiga í vændum skort og jafnvel hungursneyð, þegar vetrar að. Allur þorri hinna stritandi manna til sjávar og til sveita ber úr býtum aðeins nauðþurftir sínar, en er engu síður fullgildur og mikilsverður aðili í atvinnulífi landsins en hinir, sem við betri kjör eiga að búa.

Ég þykist vita, að þau svör muni koma við þessu frv., að það sé mjög ískyggilegt að íþyngja atvinnuvegum vorum á þessum tímum, en þá er því til að svara, að í Reykjavík einni eru um 60 millj. kr. í skattskyldum eignum einstakra manna og félaga samkv. framtali þessa árs. Þessar eignir hafa smámsaman myndazt við það, að sá afgangseyrir, sem orðið hefir á rekstri atvinnuveganna, hefir safnazt í eigu tiltölulega fámennra stétta í landinu, annaðhvort sem beinn arður af atvinnurekstrinum, ellegar sem verzlunararður í hinum almennu viðskiptum. Það virðist því vera ekki einungis þjóðfélagsleg nauðsyn, heldur og sanngirnismál, að þeir menn, sem þannig hafa borið stærri hlut frá borði í starfi þjóðarinnar, láti nokkuð af hendi rakna til þess að afstýra fyrirsjáanlegri neyð.

Ég geri einnig ráð fyrir, að fram kunni að koma raddir um það, að frv. þetta gangi of skammt. En okkur flm. þótti rétt að fara gætilega af stað, þar sem um nýja stefnu er að ræða í frv. En hinsvegar erum við fúsir til samvinnu um mál þetta og vonum, að frv. nái fram að ganga, þótt það kunni að taka einhverjum breytingum.

Ég sé ekki ástæðu til að fara mikið út í einstakar gr. frv., en vil þó aðeins get, þess, að í 5. gr. er gert ráð fyrir hærri persónufrádrætti heldur en ákveðið er samkv. gildandi lögum, og er það gert vegna þess, að margir líta svo á, og það með fullum rétti, að frádrátturinn sé of lágur.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um frv. þetta, en get látið mér nægja að vísa að öðru leyti til þeirrar grg., sem því fylgir.