11.08.1931
Efri deild: 26. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 364 í B-deild Alþingistíðinda. (216)

1. mál, fjárlög 1932

Jón Þorláksson:

Ég ætlaði aðeins að taka ofurlítið yfirlit yfir varnarþrot hæstv. forsrh. út af aðfinnslum mínum um þessa ómerkilegu stjórnarskýrslu um verklegar framkvæmdir á árunum 1927–1929. Hæstv. forsrh. greip til þess að lesa upp setningu úr þessu verki, setningu, sem ég hefi ekki fundið neitt að. Nú, það eru auðvitað til þær málsgr. í bókinni, sem eru réttar. Og svo segir hæstv. forsrh., að þetta sé rétt, og þess vegna séu aðfinnslur mínar ekki á rökum byggðar.

Út af þeim aðfinnslum, sem ég gerði við kaflann um vegina, les hann upp: „Nú er svo komið, að telja má vel bílfært frá Borgarnesi til Húsavíkur, þó að á köflum sé þar um ruddan veg að ræða, en eigi upphlaðinn; — —“. En það var nú ekki þetta, sem ég var að finna að, heldur það, sem í skýrslunni segir, að „vegakerfi landsins hafi aukizt með meiri hraða en áður hefir þekkzt, og langt fram úr þeim áætlunum, sem áður voru gerðar um það“. Þetta er rangt, og það var það, sem ég fann að.

Það má lesa það í aths. við fjárlagafrv. 1926, að stj. tekur þar upp veginn frá Borgarnesi til Norðurlands og stingur upp á, að teknar séu upp meiri fjárveitingar til vegamála en vegamálastjóri hafði lagt til, og hafði látið hann gera áætlun með það fyrir augum, að lokið yrði vegalagningu norður að Bólstaðarhlíð, nyrzt í Húnavatnssýslu, í síðasta lagi árið 1932. Og til þess að þetta mætti verða, varð að færa veginn yfir Holtavörðuheiði, sem verið hafði í öðrum flokki þjóðvega, yfir í fyrsta flokk, því eins og kunnugt er, leggur þingið hærri upphæð til þeirra vega.

Nú vita það allir, að það vantar mikið á, að vegalagningu norður að Bólstaðarhlíð verði lokið í síðasta lagi árið 1932, þrátt fyrir það, að landsmenn hafa lagt svo miklu meira á sig í fjárframlögum til vega á undanförnum árum en búizt var við í þeirri áætlun, sem gerð var um vegamálin þegar þessi stefna var tekin árið 1926. Það er því rangt að segja það í þessari skýrslu um vegamálin, að vegalagningum sé komið langt fram úr þeirri áætlun, sem áður hafi verið um þetta gerð.

Alveg sama er að segja um varnirnar út af rangfærslunum um berklavarnakostnaðinn. Það, sem ég sagði um það, stendur fast og óhrakið, að það hefir ekki átt sér stað nein lækkun um 300 þús. kr. á kostnaðinum til herklavarna, eins og í skýrslunni segir. Ég hefi ekki rannsakað það, hvort einhver örlítil lækkun kann að hafa átt sér stað. Eitthvað kann að hafa dregið úr kostnaðinum við það, að stj. neitaði að borga sjúklingunum það, sem þeir áttu heimtingu á að fá, en það getur ekki hafa valdið verulegri lækkun á kostnaðinum í heild. Hitt eru rangfærslur, að tala um nokkra lækkun á berklavarnakostnaðinum, þegar það stafar eingöngu af tilfærslu á gjalddögum. Vegna tilfærslunnar á gjalddögunum hafa greiðslur færzt á milli ára, líklega bæði árin 1927 og 1928, sem sýna sérlega háar tölur. Í stað þess að bera á móti þessu, væri sæmilegra fyrir hæstv. forsrh. að segja: „Ég veit þetta ekki, en ég skal láta rannsaka það“. Sú rannsókn leiðir það áreiðanlega í ljós, að ég hefi gert full skil á þessu af minni hendi sem fjmrh., í ræðu, sem ég hélt um fjárl. á þinginu 1927, og í ræðu um breyt. á berklavarnalögunum, og að það komi meira en eins árs kostnaður til útgjalda á sama ári, eins og línuritið líka sýnir.

Ég nefndi ekki þetta tvennt af því að það væri svo sérlega mikils virði í samanburði við aðrar rangfærslur í þessu riti; ég nefndi þetta sem dæmi, sem ég tók af handahófi af því, sem ég hafði lesið. Ég hefi nú satt að segja ekki gefið mér tíma til að lesa alla bókina. En höfuðaðfinnslan er náttúrlega sú, að stj. hefir í fullkomnu heymildarleysi tekið fé úr ríkissjóði til að greiða með útgáfukostnað þessa níðrits, fé, sem hefði átt að nota til annars.

Ég mun koma aftur að þessu máli við 2. umr. fjárl. Það er sem sé alveg óhjákvæmilegt að semja og gefa út rit til leiðréttingar við þetta rit. Og ég tel rétt, að ríkissjóður kosti það, og Alþ. veiti fé til þess, og mun bera fram till. við 2. umr. fjárl. um fjárveitingu í þessu skyni.