15.08.1931
Neðri deild: 30. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í C-deild Alþingistíðinda. (2160)

43. mál, tekju- og eignarskattur til atvinnubóta

Frsm. meiri hl. (Steingrímur Steinþórsson):

Fjhn. hefir klofnað í þessu máli. Minni hl. leggur til, að frv. nái ekki fram að ganga, a. m. k. ekki á þeim grundvelli, sem það er á nú, en meiri hl. leggur til, að það verði samþ. með allmiklum breyt. Þó hefir einn nefndarmanna úr meiri hl., hv. 1. þm. N.-M., fyrirvara um einstök atriði málsins.

Það er engin þörf á að tala langt mál um frv. og brtt. meiri hl. Get ég að mestu vísað til nál. á þskj. l96 viðvíkjandi þeim breyt., sem meiri hl. hefir gert á frv.

Meiri hl. n. var það ljóst, að einhverjar ráðstafanir þyrfti að gera nú þegar til þess að draga úr því atvinnuleysi meðal landsmanna á komandi vetri, sem sjáanlegt er, að verða muni í allríkum mæli víðsvegar um landið. Þetta mun og álit annara þingflokka, því að till. um fjárframlög í þessu skyni hafa komið frá þm. úr öllum flokkum. Tveir hv. þm. úr Sjálfstæðisflokknum báru fram till. við 2. umr. fjárl. um hálfa millj. kr. til atvinnubóta í kaupstöðum og kauptúnum á komandi vetri. Þá hafa hv. jafnaðarmenn komið fram með mikið frv., þar sem gert er ráð fyrir geysimiklum framlögum til þess að ráða bót á atvinnuleysinu. Það er þannig víst, að sú skoðun er ríkjandi innan allra þingflokka, að einhverra ráðstafana sé þörf í þessu skyni.

Við framsóknarmenn í þessari hv. d. gátum ekki gengið inn á till. hinna tveggja sjálfstæðismanna, hv. 2. þm. Reykv. og hv. þm. Vestm., þar sem tekjuhalli hefði orðið á fjárl., hefði hún verið samþ., nema nýr tekjustofn kæmi á móti.

Breyt. þær, sem meiri hl. n. hefir gert á frv., felast aðallega í tvennu: Í fyrra lagi er gert ráð fyrir hærri tekjum en áður, og í síðara lagi eru sett nánari ákvæði um ráðstöfun fjárins. Meiri hl. leggur til, að álag á eignarskatt verði hækkað úr 100% upp í 150% og að lágmark hinna skattfrjálsu eigna lækki úr 30 þús. kr. niður í 20 þús. kr. Meiri hl. ætlar, að þessi breyt. muni gefa um 100 þús. kr. auknar tekjur frá því, sem nú er ákveðið í frv. Þá er einnig lagt til, að áfengistollurinn sé hækkaður um 50% og sé þeirri aukningu varið samkv. ákvæðum þessa frv. Tollur þessi hefir á undanförnum 5 árum numið um 580 þús. kr. til jafnaðar. 50% álag myndi því nema um 290 þús. kr. að öllu óbreyttu, en þar sem ætla má, að allmikið dragi úr notkun vína, bæði vegna hækkunar tollsins og vegna kreppunnar, þá hefir meiri hl. n. ekki áætlað þessa tekjuaukningu hærri en 180 þús. kr. á ári, eða 100 þús. á þeim tíma, sem frv. nær yfir. Er þetta eflaust mjög varlega áætlað, því verði tekjuaukning þessi ekki meiri, þá dregur mjög mikið úr áfengisnautn miðað við undanfarin ár. Væri það auðvitað mjög gott út af fyrir sig, að þetta ákvæði yrði til þess að minnka áfengisnautnina í landinu.

Áfengistollurinn er einmitt bezt fallinn til hækkunar, þar sem hann hvílir ekki eingöngu á óþörfum varningi. heldur einnig á skaðlegri vöru: hinum áfengu drykkjum. Með þessari viðbót gerir meiri hl. ráð fyrir, að á þennan hátt muni fást um 560 þús. kr., sem hægt sé að verja til atvinnubóta.

Þá leggur meiri hl. til, að gegn framlagi ríkissjóðs komi tvöfalt framlag frá sveitar- og bæjarfélögum, sem þörf hafa fyrir atvinnubætur. Þetta ákvæði verð ég að telja réttlátt og sjálfsagt. Skyldan til þess að sporna við atvinnuleysi hvílir fyrst og fremst á héruðunum sjálfum. Þegar því ríkið veitir þeim styrk í þessu skyni, vegna hins óvenjulega ástands, þá er ekki nema sjálfsagt, að þau leggi fram a. m. k. tvöfalt framlag á móti. Leggi nú héruðin fram tvöfalt tillag á móti ríkinu, þá verður það rúmlega 1,6 millj. kr., sem hægt verður að verja til atvinnubóta.

Ég býst við því, að ýmsir muni halda því fram, og ef til vill með réttu, að ýms bæjarfélög séu svo stödd, að þau séu ekki fær um að leggja þær upphæðir fram til atvinnubóta innan síns umdæmis, sem brtt. við frv. gera ráð fyrir. Þetta má vera rétt að einhverju leyti, en á hitt má þó benda, að fái sveitar- eða bæjarfélögin þessi framlög frá ríkinu, þá myndi vera auðvelt fyrir þau að fá lán til þess að standast sinn hluta kostnaðarins við það að reyna að bægja á burt þeirri ógæfu, sem atvinnuleysið er.

Þá leggur meiri hl. n. til, að skipuð verði sérstök þriggja manna atvinnunefnd, til þess að vera ríkisstj. til aðstoðar við framkvæmd þessara mála. Það getur auðvitað orkað tvímælis, hvernig n. skuli skipuð, en meiri hl. hefir lagt til, að Alþýðusamband Íslands tilnefni einn manninn, hlutaðeigandi bæjar- eða sveitarfélög annan og ríkisstj. hinn þriðja. Það er þó komizt svo að orði í þessari till., að bæjarstj. Reykjavíkur skuli skipa einn manninn, og er það vegna þess, eins og tekið er fram í till., að geri ekki hlutaðeigandi sveitar- eða bæjarfélag kröfu til þess að hafa mann í n., þá skuli fulltrúi bæjarstjórnar Reykjavíkur eiga þar sæti. Eins og gefur að skilja, getur verið erfitt fyrir héruðin víðsvegar um landið að hafa fulltrúa í nefndinni, en þau hafa rétt til þess, eins og ég tók fram áður.

Við sáum ekki ástæðu til þess að setja tæmandi fyrirmæli í frv. um það, hvernig fénu skuli varið, því að við gerum ráð fyrir, að í reglugerð, saminni af atvmrn., verði sett nánari skilyrði um þá hluti.

Við gerum ráð fyrir, að lög þessi gildi til 1. maí 1932, með það fyrir augum, að komandi þing geti framlengt þau, ef það álítur þörf á að ráða frekari bót á atvinnuleysinu. Það er því engin þörf á að láta lögin ná lengra fram í tímann, enda mun á komandi þingi vera hægara að gera sér grein fyrir því, hvernig ástandið er og hvernig það muni verða.

Ég þarf svo ekki að fara um þetta fleiri orðum að sinni, og get að öðru leyti vísað til grg. þeirrar, sem fylgir nál. meiri hl.