15.08.1931
Neðri deild: 30. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í C-deild Alþingistíðinda. (2161)

43. mál, tekju- og eignarskattur til atvinnubóta

Magnús Guðmundsson:

Það mál, sem hér liggur fyrir til umr., var afgr. í fjhn. á þeim eina fundi í n., sem ég gat ekki komið á. Veit ég ekki vel, hvað gerzt hefir á þeim fundi. en ég bjóst við, að hv. þm. G.-K. myndi gera hér grein fyrir afstöðu sinni til málsins, en hann er ekki í bænum í dag.

Ég skal taka það fram, að ég get hvorki fylgt frv. né brtt. hv. meiri hl. n. Það mun viðurkennt, að atvinnuvegir okkar séu nú aðþrengdir á öllum sviðum. Virðist það því ærið hart aðgöngu að leggja nú á þá nýja skatta, svo háa sem hér er gert ráð fyrir, skatta, sem heimtir verða inn eftir á af tekjum liðins árs. Og það er ekki nóg, að atvinnuvegirnir þurfi að borga þessar 560 þús. kr., sem er framlag ríkisins, heldur verða sveitar- og bæjarfélögin að bæta við tvöfaldri upphæð frá sér. Þeim upphæðum verða þau að ná inn með auknum útsvörum, því að þýðingarlítið er að vísa hlutaðeigandi sveitar- eða bæjarfélögum á lán, því þau munu tæplega fáanleg hjá lánsstofnunum landsins.

Nú má vel vera, að nauðsynlegt sé að leggja fram fé í þessu skyni, en ég hefi enga trú á því, að ríkissjóður geti ekki lagt fram þetta fé án þess að þurfi að leggja nýja skatta á atvinnuvegi landsmanna. Á slíkum krepputímum sem þessum ætti það að vera skylda löggjafarvaldsins að leggja ekki hærri skatta á þjóðina en brýn þörf er á. Á slíkum tímum ætti sízt að seilast dýpra ofan í vasa skattgreiðendanna en minnst er þörf á.

Það liggja fyrir tiltölulega litlar skýrslur um fjárhag ríkissjóðs á þessu yfirstandandi ári, en nokkrar eru þær þó. Má þar fyrst og fremst nefna yfirlýsingu hæstv. stj. um það, að fyrri hluti yfirstandandi árs hafi verið eins tekjuhár og fyrri hluti ársins 1930, en það er mesta tekjuár, sem yfir ríkissjóðinn hefir komið, eins og kunnugt er. Nú dettur mér auðvitað ekki í hug að halda því fram, að seinni hluti þessa árs muni verða nærri því jafntekjuhár og seinni hluti ársins í fyrra. En á það ber að líta, að árið 1930 voru tekjur ríkissjóðs um 17 millj. kr., svo að þótt gert sé ráð fyrir, að tekjurnar muni verða 2 millj. kr. minni á þessu ári, þá eru samt eftir 15 millj. kr. tekjur. Nú eru gjöldin samkv. fjárlagafrv. áætluð tæpar 13 millj. kr., og verða þá eftir 2 millj. kr. umfram áætlun þingsins. Nú er það vitanlegt, að stj. verður að hafa nokkurt fé umfram áætlun fjárl. til þess að standast ýms gjöld samkv. þál., fjáraukal. o. s. frv. En svo framarlega sem varkárni og sparsemi er gætt í meðferð fjár ríkissjóðs, þá ætti að nægja 1—1½ millj. kr. í þessu skyni, og er þá eftir a. m. k. ½ millj. kr., sem verja mætti til atvinnubróta, og er það ekki ósvipað því, sem lagt er til í till. hv. meiri hl. n.

Þá er líka annað, sem til álita kemur í þessu sambandi, en það er sjóður ríkisins. Hann virðist hafa verið 4700 þús. kr. í árslok 1930. Verð ég að segja það, að mér finnst ekkert við það að athuga, þó að tekið væri eitthvað af honum í því harðæri, sem nú virðist fyrir dyrum. Hann myndi samt sem áður vera nógu stór til þess að standast greiðslur ríkissjóðs á fyrri helming ársins 1932, en það er ætlunarverk hans. Þó að ríkissjóður yrði að leggja af mörkum allt að ½ millj. kr., þá er ekki hægt annað en álíta, að hann hlyti að standast það. En ef það kæmi í ljós, að þetta yrði erfitt fyrir ríkissjóðinn, þá er ekki svo langt til næsta þings, og þá væri hægt að bæta honum þetta með nýjum skatti. En ég vona, að það mundi ekki þurfa, svo framarlega sem stj. viðhefir ekki sama gengdarlausa fjárausturinn og á undanförnum árum, og þó sérstaklega á árinu 1930. Og ég verð að benda á það, og undirstrika það, að hv. stjórnarflokksmenn verða að virða okkur það til vorkunnar, sem höfum litla trú á stj., þó við séum ragir við að ausa fé í hendur þeirrar stj., sem okkur sýnist ekki hafa farið sparlegar með það en þessi stj. hefir gert. Það fyrsta, sem hv. stjórnarsinnar verða því að gera, áður við göngum með til samþykktar þessa máls, er að sýna fram á, að þessa skatts þurfi við. Á meðan ekki er sýnt fram á það, geta þeir ekki vænzt, að við viljum leggja á nýja skatta til að hjálpa hæstv. stj. til að halda áfram á sömu braut og áður, sem við álítum bæði óréttmæta og skaðlega. Ég skal segja það fyrir mitt leyti, að ég vil gjarnan heyra ástæður af hendi hv. stjórnarsinna fyrir því, að farið er fram á þennan nýja skatt. Um upplýsingar frá hæstv. stj. er ekki að ræða; hún sýnir sig ekki við umr. um þetta frv., og verður maður því að snúa sér til hv. stjórnarflokksmanna.

Ég skal að fyrra bragði ekki vísa frá þeirri hugmynd að leggja á nýjan skatt. ef mér er sýnt fram á það með rökum, að það sé óhjákvæmilegt fyrir ríkissjóð, ef hann eigi að standast slík útgjöld sem þessi.

Ég skal svo ekki í bili ræða þetta mál meira, en þykir ekki ólíklegt, að ég muni koma fram með brtt. við 3. umr. Mér sýnist þetta frv. nokkuð mikið bundið við höfuðstaðinn eins og það nú liggur fyrir og með þeim brtt., sem hv. n. gerir.