15.08.1931
Neðri deild: 30. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 130 í C-deild Alþingistíðinda. (2162)

43. mál, tekju- og eignarskattur til atvinnubóta

Einar Arnórsson:

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, fer fram á að leggja aukinn eignar- og tekjuskatt á gjaldendur, og einnig á samkv. brtt. n. að hækka áfengistollinn um 50%.

Þegar litið er á þetta mál, sýnist mér afskaplega lítið unnið við það fyrir þá kaupstaði og þau kauptún, sem kæmu nú til með að fá þennan skatt til atvinnubóta. Ef miðað er við Reykjavík, þá sé ég, að þessi skattur muni koma þar nokkuð þungt niður. Íbúar Reykjavíkur, sem skattskyldir verða eftir frv., borga sennilega 300–350 þús. krónur af þeim 560 þús. kr., sem áætlað er, að skatturinn nemi, ef frv. verður að lögum. Nú er það auðsær hlutur, að þessir menn, sem þurfa að borga þetta gjald, ef það innheimtist, eru því ófærari til að greiða útsvör sín til bæjarins á næsta ári, og að þessi tekjuauki gengur þannig út yfir getu manna til að greiða skatta til bæjarins.

Nú á að verja þessum skatti til atvinnubóta á þeim stöðum, sem þess þarf með. Jafnframt er það gert að skilyrði, að viðkomandi bæjar- eða sveitarfélag leggi fram 2/3 parta á móti þessum skatti. Þá horfir þetta þannig við í Reykjavík, að fyrst er tekinn skattur af Reykvíkingum til atvinnubóta hjá þeim, og öðrum að einhverju leyti. En aðnjótandi þess hluta skattsins, sem koma á til þeirra, geta þeir ekki orðið, nema þeir leggi 2/3 á sig sjálfa á móti til viðbótar.

Ég sé nú ekki, hvað er unnið við þetta, t. d. fyrir Reykjavík. Mér skilst, að bæjarstj. gæti eins vel beint ákveðið það, að upphæð, sem svaraði þeim skatti, sem lagður yrði á skattþegna þessa bæjar samkv. þessu frv., skyldi lögð á þá til viðbótar við útsvörin og varið til atvinnubóta. Mér finnst ríkissjóður vera hér alveg óþarfur milliliður. Það er í raun og veru ekki annað en krókaleið, sem hér er verið að fara. Það er ekki verið að leggja neitt til atvinnubóta úr ríkissjóði. Það er farin sú leið, að ríkið lætur leggja aukaskatt á skattþegnana, aðallega í Reykjavík, og lætur borga hann til sín, og greiðir hann svo út aftur til atvinnubóta hingað og þangað. Það er alger misskilningur, að ríkið leggi nokkuð fram til atvinnubóta með þessu. Það er í hæsta lagi hægt að segja, að það annist innheimtu á þessu fé, innheimtu, sem bæjar- og sveitarfélög gætu alveg eins vel annazt. Eins væri þeim trúandi til að leggja útsvör á skattþegna sína og verja því til þeirra hluta, sem frv. þetta ætlast til.

Það er ætlazt til í till. hv. fjhn., að sveitarfélögin eigi að leggja fram 2/3 móti því, sem ríkissjóður leggur fram. Ef nú ætti að verja segjum 250 þús. kr. til atvinnubóta hér, er ekki hægt að greiða Reykjavík það fé út, nema hún leggi fram ½ millj. á móti. Hvernig ætti nú að fara að? Það stendur ekkert um það í frv. eða brtt. n., hvernig eigi að fara að, ef sveitar- eða bæjarfélag væri svo illa statt, að það gæti ekki lagt fram 2/3 hluta á móti. Það er þó hugsanlegur möguleiki, að eitthvert sveitarfélag yrði svo illa statt, að það gæti ekki lagt þetta fram. Þá væri ekki hægt að nota ákvæði þessa frv., ef það yrði að lögum. Þá yrði að fara einhverja aðra leið og veita þeim hreppum, sem svo væri ástatt fyrir, einhvern annan styrk.

Nú er það auðsætt, eins og líka víða felst í till. meiri hluta n., að hún ætlast ekki til og dettur það ekki í hug, að þetta verði nærri því fullnægjandi. Og þegar hún ætlast til, að bæjar- og sveitarfélögin leggi fram 2/3, en ríkissjóður 1/3, þá þýðir það í raun og veru ekki annað en það, að sveitar- og bæjarfélögin leggi allt til. Ríkissjóður leggur ekki neitt til — bara leggur á gjöldin og innheimtir þau, í stað þess að gefa bæjar- og sveitarstjórnum leyfi til að leggja á viðbótarútsvör sem skattinum nemur. Það gæti verið ástæða til að setja fyrirmæli um að heimila bæjar- og sveitarstjórnum að setja einhver ákvæði til að gera ýmsar ráðstafanir í þessu skyni, úr því að hv. d. vill ekki, að ríkissjóður leggi fram neitt fé beinlínis, eins og við þm. Reykv. fórum fram á við 2. umr. fjárl.

Ef svo færi, að frv. gengi gegnum 2. umr., geri ég ráð fyrir, að ég og fleiri muni koma með brtt., því ýmislegt í því mætti betur fara.