15.08.1931
Neðri deild: 30. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 132 í C-deild Alþingistíðinda. (2163)

43. mál, tekju- og eignarskattur til atvinnubóta

Haraldur Guðmundsson [óyfirl.]:

Ég vil leyfa mér að byrja á því að beina fyrirspurn til allshn., að ég ætla, um það, hvað liði frv. okkar jafnaðarmanna um ráðstafanir gegn atvinnukreppu. (Rödd af þingbekkjum: fjárhagsnefndar). Já, fjhn.; það mun vera rétt; það var sama n., sem fékk það til meðferðar og þetta frv., en hv. frsm. lét ekki að neinu getið, hvort hv. n. ætlaði að stinga því máli undir stól, eða hvort von muni vera á því bráðum frá nefndinni, en það hlýtur auðvitað að ráða miklu um afstöðu okkar jafnaðarmanna til þessa frv. Um þetta frv. get ég annars sagt það strax, að ég tel, að sú viðleitni og sú viðurkenning, sem í því felst, sé réttmæt og að þar séu viðurkenndar réttar þær leiðir, sem jafnaðarmenn hafa bent á, að fara ætti í þessum málum Megingalli frv. er að mínu viti sá, að þær ráðstafanir, sem það ætlast til, að gerðar séu til að bæta úr atvinnuleysinu, eru gersamlega ófullnægjandi — gersamlega ófullnægjandi. Þær eru svo ófullnægjandi, að ég vil ekki kalla það kátbroslegt, en grátbroslegt getur maður kallað það, að þeir sömu menn, sem hér hafa lýst, og það réttilega, þeim horfum, sem framundan eru, sem hinum verstu á þessari öld, skuli bera fram frv., sem ekki gengur lengra í að bæta úr hinni yfirvofandi kreppu en þetta frv. gerir, samtímis því, að dregið er úr framkvæmdum hins opinbera að ¾ hlutum. Þó að þetta frv. verði að 1. og þó að gert sé ráð fyrir, að hver eyrir af þessum peningum komi fram, þá eru ekki nokkrar líkur fyrir, að það bæti upp nema rösklega helming þess, sem þarf til, að verklegar framkvæmdir hins opinbera verði til jafns við það, sem þær hafa verið seinasta ár.

Ef við athugum saman þetta frv. og fjárl. eins og þau voru afgr. héðan úr hv. d., þá er það bersýnilegt, að ráðstafanir hv. Alþ. verða ekki til að bæta úr atvinnukreppunni. Því þó þetta frv. verði að l., þá verður þó dregið úr atvinnu hjá hinu opinbera og með því aukið á atvinnuleysi í landinu. Þetta er megingalli frv.

Eftir till. hv. n. er gert ráð fyrir því, að álag á tekjuskatt sé tekið eins og það er í frv., en álag á eignarskatt sé hækkað um 50%, upp í 150%, og til viðbótar tekið 50% álag á áfengistollinn. Þá mun ekki langt frá — og sú tekjuáætlun virðist svo varleg, að það megi vænta, að hún standist —, að þetta nemi 560 þús. króna. En ef svo er gengið frá frv. eins og hv. meiri hl. n. leggur til, þá er útlit fyrir, að jafnvel þessi upphæð muni aldrei koma til útbýtingar. Það er sem sé skilyrði, að tvöfalt framlag komi á móti. En nú er það vitað, að hjá allmörgum bæjar- og sveitarfélögum er þannig ástatt, að það er ógerningur fyrir þau að leggja fram á þessum tíma tvöfalt framlag ríkissjóðs, eða liðlega 1100 þús. krónur. Flest eða öll bæjar- og sveitarfélög hafa nú gengið frá fjárhagsáætlunum sínum fyrir þetta ár. Og jafnvel þó tekið væri til aukaniðurjöfnunar, þá eru engar líkur til, að sú aukaniðurjöfnun innheimtist fyrr en á næsta ári, um leið og útsvörin fyrir það ár koma inn.

Það er því bersýnilegt, að eigi þetta að koma að verulegu gagni, eða aðeins að því gagni, sem frv. ætlast til, þá verður jafnframt að gera ráðstafanir til að tryggja bæjar- og sveitarfélögunum það eða sjá svo um, að þau geti lagt fram fé á móti. Og það verður ekki gert á annan hátt en þann, að ríkissjóður láni þeim fé, eða á annan hátt geri þeim það kleift að fá fé, t. d. að láni, með því að ganga í ábyrgð fyrir þau.

Ég er sammála hv. 2. þm. Skagf. um það, að eftir að verðtollurinn hefir verið samþ., er full ástæða til að krefjast þess, að ríkissjóður geti lagt fram jafna upphæð á móti, og þá þyrfti ekki framlag héraðanna að nema nema 1/3, eða sömu upphæð og úr ríkissjóði, sem sé um 560 þús. kr.

Í frv. jafnaðarmanna um ráðstafanir gegn kreppunni var einmitt bent á þetta, og mig furðar á, að hv. meiri hl. n. skuli ekki hafa athugað þetta. Í því frv. er gert ráð fyrir, að ríkissjóður leggi fram 1/3 hluta sem atvinnubótastyrk. Og þar er ennfremur gert ráð fyrir, að þau mannvirki, sem venjulega njóta styrks úr ríkissjóði. hafi þennan styrk áfram, auk atvinnubótastyrksins. Með þessu móti er útvegað nokkurt fé til atvinnubótanna.

Til þess að menn geri sér nokkra hugmynd um, hversu mikla fjárhæð hér er um að ræða, sem hv. flm. þessa frv. telja sjálfsagt, að atvinnuleysinu verði útrýmt með á yfirvofandi krepputímum, þá vil ég nú sýna, hve miklu þetta nemur á hvern mann. Ef ætla má, að atvinnuleysið komi aðallega niður á kaupstöðum og kauptúnum, þá er íbúatalan þar nú um 50 þús. manns. Styrkur sá, sem verður framlag ríkissjóðs, nemur þá um 11 kr. á hvern íbúa þessara staða. (BJ: Þeir eru ekki allir atvinnulausir). Nei, ég sagði íbúa; ég hélt, að hv. þm. Barð. mundi skilja íslenzkt mál. — Á móti þessu mundi koma sem framlag héraða tvöföld upphæð, eða 22 kr. á hvern íbúa. Allt framlagið nemur þá fyrir þennan helming þjóðarinnar 33 kr. á hvern mann. Bær eins og mitt kjördæmi mundi þá fá úr ríkissjóði um 11000 kr., miðað við, að framlagi ríkissjóðs yrði skipt jafnt niður á kaupstaði og kauptún eftir mannfjölda. Þetta fengi þá mitt kjördæmi til að bæta úr atvinnuleysinu, og til væri skilið, að það legði fram 22 þús. á móti. Mér er nú ekki vel kunnugt um efnahag bæjarins, en ég gæti hugsað, að honum gæti veitzt erfitt á þessum tímum að fá þó ekki væri nema 22000 kr. (MG: Fær hann þær ekki úr útibúinu?). Já, ég tala nú hér sem þm., en ekki sem útibússtjóri.

Um aðra kaupstaði er svipað að segja. Við skulum taka Hafnarfjörð, sem hefir um 4000 íbúa. Hann ætti að fá 44000 kr. af þessum styrk, gegn því að leggja fram 88 þús. kr. á móti. Ég veit ekki, hvort Hafnarfjarðarbær gæti það. Og svo ég víki að einum flm. brtt., hv. 1. þm. Skagf., þá efast ég um, þó Sauðárkrókur fengi styrk af þessu atvinnubótafé, að það kæmi honum að fullum notum; ég efast um, að hann gæti lagt fram í reiðu fé tvöfalda upphæð á móti. Og svona mætti lengi telja.

Það er auðvitað, að hér í Reykjavík er mest fjármagn, að hún er ríkasta borgin ekki aðeins að krónutali, heldur einnig miðað við fólksfjölda. Á ég þar ekki svo mjög við bæjarsjóð sjálfan; ég býst við, að sumir aðrir kaupstaðir á landinu séu eins vel stæðir að því leyti. En þegar miðað er við eignir bæjarbúa á hvern íbúa, er ekki hægt að neita því, að Reykjavík er langbezt stödd af öllum bæjarfélögum á landinu.

Reykjavík mundi fá um 330 þús. kr. af þessum styrk til atvinnubóta, fram til 1. maí næsta ár, og ætti þá að leggja fram 660 þús. kr. á móti. Ég geri nú ráð fyrir, að hægt væri fyrir bæinn að afla þessa fjár, en ég er bara ekki viss um, að bæjarstj. mundi leggja nokkurt kapp á að fá fé til atvinnubóta, eftir þeirri reynslu, sem ég hefi af henni. Ég vil því beina því til hv. fjhn., að hún athugi það til 3. umr., eða sá meiri hl. n., sem hefir fallizt á frv. þetta, að setja í það einhver ákvæði um að gera ráðstafanir til að tryggja hlutaðeigandi bæjar- og sveitarfélögum fé að láni eða ábyrgð ríkissjóðs, svo að þeim megi koma að gagni þessi styrkur, en að hann verði þeim ekki „sýnd veiði, en ekki gefin“, eins og hann myndi verða, ef þau gætu ekki fengið lán.

Ég sé svo ekki ástæðu til fleiri aths. við frv.; við jafnaðarmenn munum láta það ganga til 3. umr., en fyrir þann tíma geri ég ráð fyrir, að frv. okkar um sérstakar ráðstafanir vegna kreppunnar verði komið aftur til þessarar hv. d., og fer þá um afstöðu okkar til þessa frv. eftir því, hvernig fer um það frv.