22.07.1931
Neðri deild: 7. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 144 í C-deild Alþingistíðinda. (2173)

47. mál, undanþága skóla og sjúkrahúsa frá afnotagjaldi til útvarps

Flm. (Vilmundur Jónsson):

Það er rétt, að þetta er ekki stórmál, og má segja, að umræddar stofnanir verði jafnfátækar, hvort sem þær borga 30 kr. meira eða minna, svo dýr sem rekstur þeirra er að jafnaði. En það er ekki rétt að bera útvarpið saman við símann, því að hann er nauðsynlegt tæki, en útvarpið hinsvegar fyrst og fremst skemmtitæki, a. m. k. fyrir sjúkrahús, elliheimili og aðrar þvílíkar stofnanir. Oft eru útvarpstækin gefin sjúklingum á sjúkrahúsum eða gamalmennum á elliheimilum þeim til dægrastyttingar. En það er leiðinlegt fyrir gefendurna að gefa slík útvarpstæki og fyrir þiggjendurna að þiggja þau, ef stofnununum eru með gjöfinni bundnir baggar um ókomin ár. Ég geri ráð fyrir, að útvarpið þyrfti ekki að tapa miklu við þessa undanþágu, því að verið gæti, að fyrir hana fengju fleiri stofnanir útvarpstæki en ella. En af sölu útvarpstækjanna hefir útvarpið drjúgar tekjur, þó að árgjöld komi ekki til.

Viðvíkjandi því, að þetta skapi fordæmi, þá getur það verið, og gæti ég fallizt á að takmarka þessa undanþágu meira en gert er í frv., t. d. með því að nefna þá skóla og stofnanir, sem hún væri látin ná til. Þá væri girt fyrir, að hér skapaðist eitthvert fordæmi, sem ekki væri hægt að sjá út yfir.

Bezt væri að hafa yfirleitt ekkert afnotagjald af útvarpinu, og vonandi kemur að því.

Ef þetta frv. er það hégómamál sem hv. þm. Dal. vill vera láta, þá virðist mér ótrúlegt, að það sé um leið svo varhugavert sem hann kallar það.