11.08.1931
Efri deild: 26. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 367 í B-deild Alþingistíðinda. (218)

1. mál, fjárlög 1932

Einar Árnason:

Það er óhætt að segja, þegar litið er yfir dagana í gær og í dag, að litlar eftirtekjur hafi orðið eftir allar þær umr., sem fram hafa farið. Er ekki laust við, að nokkuð sé til í því, sem haft hefir verið orð á, að hér hafi farið fram skrípaleikur bæði í gær og í dag. Í gær skildist mér á hv. 1. og hv. 2. landsk., sem þeir vildu sneiða hjá eldhúsumr. Þó finnst mér þeir hafa eytt allmiklum tíma í eldhúsumr., og er það kynlegt eftir orðum þeirra. Bók stj. um verklegar framkvæmdir sínar var það, sem gaf þeim helzt tilefni. Virðist mér lestur bókarinnar hafa haft ólík áhrif á hv. 1. og hv. 2. landsk. Er svo að sjá, sem bókin hafi komið hv. 2. landsk. í gott skap, honum hafi þótt bókin falleg og myndirnar skemmtilegar. Hjó ég eftir því í ræðu hans, að hann hefði vegið bókina og svo skýrslu eina, er enska stj. gaf út um verklegar framkvæmdir þar í landi, og var þyngdarmunurinn þó nokkur. Skildist mér á hv. 2. landsk., að hann sæi eftir pappírnum, sem eytt hefði verið í bókina. Getur það vel verið, að eytt hafi verið of miklum pappir og að bókin sé of þung. En ekki er alltaf hægt að mæla verðmæti eftir þyngd. Hefir það t. d. verið sagt um flokk sócíalista á þingi, að hann muni vera hlutfallslega þyngstur allra þingflokka. Sannar það þó ekki, að þeir hafi gert þar meira gagn en aðrir flokkar, og ekki er heldur hægt að ráða neitt um gagnsemi íslenzku og ensku stj. af þyngdarmun skýrslnanna, því að enska stj. sýndi sparnað á pappír. Getur þetta vel verið rétt. En ég vildi jafnframt ráðleggja hv. 2. landsk. og flokki hans að taka sér ensku stj. til fyrirmyndar um stutt orðalag og flutning á ýmsum pappírsgögnum, sem koma inn í þingið. Held ég ekki, að hann hafi gert þetta, því að hann og flokkur hans eyða mestum tíma í ræður og flytja mest af pappír inn í þingið.

Þar sem bókin virðist hafa komið hv. 2. landsk. í gott skap, og með því að það er nauðsynlegt hverjum manni, þá hefir hún vissulega gert honum gagn. Hinsvegar virðist hún hafa haft allt önnur áhrif á hv. 1. landsk. og komið honum í vont skap. (JBald: Allt þetta var sagt í gær.!). Hefir hann e. t. v. ástæðu til að vera óánægður með bókina. Talaði hann um það í gær og í dag, að langt væri frá því, að vegagerðir hefðu orðið á undan áætlun hans, heldur hefðu þær orðið á eftir. Virtist mér hann hafa gert áætlun um upphleyptan veg frá Bólstaðarhlíð til Borgarness, sem kominn ætti að vera í árslok 1932. Eru engar líkur til, að þetta komist á, og sýnir það einungis, að áætlun hans er fjarri öllum sanni.

Stj. hefir á síðari árum lagt mikið fé til vega, og nú er hún áfelld fyrir. En þó að þessi vegagerð nái ekki fram að ganga fyrir þann tíma, sem áætlaður var, þá sýnir það ekki annað en að áætlunin er tóm vitleysa, eða þá að ekki hefir verið ætlazt til, að unnið yrði að vegagerð annarsstaðar á landinu en þarna. Mun það verða svo lengi enn, að vér munum þurfa að notast við rudda vegi. Tel ég það vel farið, ef hægt er að greiða svo fyrir samgöngum, að unnt sé að notast við vegi þá, er náttúran skapaði. Annars tel ég þarfleysu að vera að deila um það, hvort þarna ætti að vera kominn upphleyptur vegur.

Þá verð ég að minnast á eitt atriði í sambandi við ræðu hv. 1. landsk., sem stendur nú utan við deiluefnið, bókina. Hv. 1. landsk. kom fram með yfirlýsingu hérna í deildinni í gær. Er yfirlýsing þessi ekki ný, því að hann var með hana á fundi í sameinuðu þingi skömmu eftir þingsetningu og víða annarsstaðar. Hann er alltaf að stagast á því, að hér sé engin þingræðisstjórn. Hefir hann ekki getað fært nein rök fyrir þessari staðhæfingu, og er hún einskis virði. Ef hv. þm. gæti sýnt fram á það, að þing sé þannig samsett, að ekki geti farið fram lögleg kosning þingmanna, þá væri vit í þessu, en þetta hefir hann ekki getað, og dettur engum í hug að halda slíku fram. Hefir öllum lögum verið fylgt um það, og er þingið því löglega kosið. Þótt meiri hluti kjósenda standi ekki að baki stj., þá er ekki þar með sagt, að hún sé ekki lögleg þingræðisstjórn. Ef alltaf ætti að fara eftir þessu, þá mætti eins rannsaka slíkt um öll frv. þingsins, og hefir víst engum dottið það í hug. Skilst mér, að hv. þm. finnist þessi yfirlýsing sín næg sönnun þess, að hér sé ekki hægt að mynda þingræðisstjórn.