22.07.1931
Neðri deild: 7. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 150 í C-deild Alþingistíðinda. (2198)

49. mál, útflutningsgjald af síld

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Ég skal ekki hafa mörg orð fyrir þessu litla frv. Eins og hv. þdm. er kunnugt, þá er útflutningsgjald af síld kr. 1,50 af hverri tunnu, auk innflutningstolls af tunnu og salti, sem samtals verður nálægt 50 aurum, eða samtals um 2 kr. gjald af hverri tunnu. — Með 8 kr. verði á síldartunnu netto nemur útflutningsgj. og tollur því um 25%, eða 100 kr. af hverjum 400 kr. hlut hjá hásetum á síldveiðum.

Af hverjum 100 kg. af síldarmjöli er útflutningsgjaldið kr. 1,00. Með því verði, sem lítur út fyrir, að verði á saltsíld, og með því verði, sem vænta má á afurðum síldarbræðslustöðvarinnar, þá er skattur þessi feiknar hár.

Ég sé heldur enga ástæðu til þess að leggja hærra útflutningsgjald á síld en hverja aðra vörn. En útflutningsgjald nú almennt er 15/8% með þeirri uppbót, sem samþ. var á seinasta þingi. Hér er gert ráð fyrir í þessu frv., að síld og síldarafurðir verði teknar út af þessari sérstöku gjaldskrá, felldar undan þessu sérstaka gjaldi, og aðeins lagt sama útflutningsgjald á þessar vörur og aðrar útflutningsvörur landsmanna.

Tekjumissir ríkissjóðs af þessu myndi nema, ef miðað er við síðasta árs verðlag á síld, um kr. 1,00 af hverri tunnu, og kr. 0.50 af hverjum poka af síldarmjöli, eða 180 þús. kr. af síldinni. Og ef miðað er við næsta ár á undan, myndi tekjumissirinn verða um 120–l30 þús. kr. Sama er að segja um síldarmjölið, lækkunin á útflutningsgjaldi af því mundi verða um helmingur.

Þegar þetta sérstaka útflutningsgjald var ákveðið, þá mun það hafa verið vegna þess, að mikill hluti síldveiðanna var í höndum útlendinga, og þetta því gert til þess að ná sér niðri á þeim. Nú er þessi ástæða burtu fallin.

Ég vil svo leggja til, að frv. verði, að lokinni umr., vísað til 2. umr. og sjútvn.