11.08.1931
Efri deild: 26. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 377 í B-deild Alþingistíðinda. (221)

1. mál, fjárlög 1932

Bjarni Snæbjörnsson [óyfirl.]:

Ég skal taka það strax fram, að mér stendur alveg á sama, hvert álit hv. 5. landsk. hefir á mér og mínum hæfileikum. Það hefir sýnt sig, að álit hans á sumum mönnum í þjóðfélaginu hefir ekki ennþá gengið í almenning. A. m. k. get ég fullvissað hann um, að meiri hl. kjósenda í Hafnarfirði getur ekki fellt sig við það.

Ég ætla að tala hér um þessa prýðilegu menn, sem hv. 5. landsk. var að tala um í ræðu sinni. Það hefir vanalega verið þannig, hvort sem þm. eða læknir hefir átt í hlut, að hv. þm. lofar þá eina, sem hafa fylgt honum í öllum hans strákapörum. Það var eini gallinn á þeim mæta manni, Sigvalda Kaldalóns, að hann komst undir áhrif þessa hv. þm., því að þeir verða flestir saurugir, sem þannig fer fyrir.

Hv 5. landsk. sagði, að ég hefði veitzt ómaklega að landlækni, og væri það allt ósannindi, sem ég hefði sagt. Ég sagði, að þótt taka megi tillit til landlæknis, beri að fara meira eftir áliti sérfræðinga, því landlæknir hefir ekki meira til brunns að bera en almennur læknir. Ég sagði ennfremur, að landlæknir væri kominn í vasa hv. 5. landsk. vegna þess, að honum hefði verið hótað brottrekstri, ef hann fylgdi því ekki, sem þáv. hæstv. dómsmrh. vildi vera láta. Landlæknir hefir líka sagt á opinberum fundi, að í heilbrigðismálum væru 2 aðiljar, hann og stj., og þótt hann vildi eitthvað, gæti hann ekki fengið því ráðið.

Þá sagði hv. 5. landsk., að sjúklingarnir hefðu getað sparað sér ýmsar kúnstir, þegar þeir áttu að fara að borga. Ég veit ekki, hvað hv. þm. á við með þessu, en ég hygg, að þetta eigi að vera sneið til læknanna. Ég verð að segja hv. þm. það, að þó að hann haldi, að hann hafi allra manna bezt vit á öllum málum, hefir hann í læknamálum svo lítið vit, sem minnst er hægt að komast af með (PM: Eins og í öðrum málum.), og þegar þessi hv. þm. segir, að ég hafi ekkert vit á stjórnmálum, get ég sagt honum, að hann hefir ekkert vit á þeim málum, sem hann er nú að rökræða við mið.

Hv. þm. sagði, að berklavarnastyrkurinn hefði lækkað vegna ráðstafana stj. Ég vil minna þennan hv. þm. á það, að allir reikningar fyrir árið 1929 hafa verið greiddir læknunum. A. m. k. hafa allir mínir reikningar verið greiddir án nokkurra aths. Og þetta er fyrir árið 1929, þegar hv. þm. segir, að berklavarnakostnaður hafi lækkað um 300 þús. kr.

Þá sagði hv. þm., að ég hefði ekki þorað að mæta móti hinum frambjóðandanum í Hafnarfirði. Ég veit það vel, að ég get ekki malað svo mikið sem hv. þm., en ég álit, að menn eigi helzt að vera stuttorðir. Ég hafði einnig ýmsum öðrum störfum að gegna, enda hélt ég, að hv. þm. áliti, að læknar ættu að starfa fleira en að stjórnmálum. Annars held ég, að læknar fylgist yfirleitt vel með „sociölum“ málum. Ég veit t. d. ekki, hverjir hafa komið heilbrigðislöggjöfinni á aðrir en læknar. Hv. þm. vill þó líklega þakka sér það, að hann rauk upp til handa og fóta og kom upp „barak“ austur í Ölfusi til þess að koma þangað fátæku fólki úr Reykjavík og Hafnarfirði, eða jafnvel holdsveiku fólki.

Ég skal ekki lengja hér umr. Ég býst ekki heldur við, að það hafi mikla þýðingu að rökræða við hv. þm. um lækna og læknamálefni. En ég býst við, að flokksmenn hans hafi sumir staðið við sóttarsæng sjúklings, sem hægt hefði verið að bjarga, ef hann hefði notið læknisaðgerðar nógu snemma. Og Framsóknarflokksmenn hefðu getað læknað sinn flokk með því að skera burt þá meinsemd, sem nú þjáir hann og yfirgefur hann ekki fyrr en hún er búin að ganga frá honum.