23.07.1931
Neðri deild: 10. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 154 í C-deild Alþingistíðinda. (2211)

63. mál, útsvör

Flm. (Einar Arnórsson):

Það eru aðeins örfáar aths., sem ég vildi gera við ræðu hv. 2. þm. Skagf. Það mun rétt vera, eftir því, sem dómstólarnir segja, að maðurinn, sem sjálfur notar veiðirétt sinn, skal greiða útsvar, en í sjálfu sér er enginn mismunur á því, hvort ég nota hann sjálfur eða leigi öðrum hann. Ég er alveg eins fær um að greiða útsvar, ef ég hefi t. d. veiðirétt í Norðurá, hvort sem ég nota hann sjálfur eða leigi hann fyrir einhverja fjárupphæð. Eins er það með húseignina, og eigandi hússins hefir þar enga áhættu aðra en þá, að leigutaki borgi ekki afnotagjaldið. Annars hefir það nú verið svo, að þeir menn, sem álitið hafa útsvar sitt of hátt, hafa flutt sig rétt út fyrir héraðstakmörkin, sumpart til málamynda, en sumpart máske ekki. Þetta er skattflótti, sem á ekki að þolast og sjálfsagt er að koma í veg fyrir.

Það er rétt, að bærinn tekur fasteignagjöld, en þó er engin ástæða til að leggja á móti þessu frv. fyrir það, því að eigandinn á þann arð bænum að þakka, sem hann hefir af húsinu og verðmæti þess. Ef maður á hús við aðalgötu, þá er það ekki honum aðallega að þakka, að eignin er sérstaklega verðmæt, heldur bæjarfélaginu, og virðist því sanngjarnt, að útsvar sé þá á lagt til handa því bæjarfélagi, sem eigandi á aðallega að þakka verðmæti eignar sinnar. Ef á að leggja á menn útsvör sökum þess, að þeir hafa lóðarafnot í plássinu, eins og t. d. á Siglufirði, virðist ekki síður ástæða til að gera það, ef þeir eiga þar húseignir, hvort sem þeir nota þær sjálfir eða selja þær á leigu.

Hv. 2. þm. Skagf. taldi þingið hafa fordæmt það að leggja útsvar á menn utan heimilissveitar þeirra. Þetta er eigi rétt, eins og bezt má sjá af sjálfri 8. gr. útsvarslaganna, þar sem mjög svo er einmitt gengið inn á þá braut að gera utansveitarmenn útsvarsskylda. Hitt er rétt, að víða hér á landi var níðzt á utansveitarmönnum með útsvarsálagningu, og þá gátu þeir aðeins skotið málinu til niðurjöfnunarnefndar og svo til sýslunefndar eða bæjarstjórnar, en nú er þetta breytt. Hver sá, er þykist órétti beittur, getur nú skotið máli sínu til yfirskattanefndar og atvinnumálaráðherra, og full trygging ætti að vera fyrir því, að hann gæti í það minnsta litið óhlutdrægt á málið og lækkað útsvarið, ef rétt væri að gera það. Tilgangurinn með frv. þessu er sem sagt var sá, að betra samræmi megi komast á löggjöfina um þetta efni en nú er. Hér í Reykjavík er engin hætta á, að utanbæjarmönnum verði íþyngt með útsvörum, því að við höfum nokkurn veginn fastar reglur að fara eftir, sem koma í veg fyrir slíkt. Ef maður gefur réttar upplýsingar um hagi sína, þá leggur niðurjöfnunarnefnd á hann útsvar eftir ákveðnum mælikvarða, en ef hann þá þykist órétti beittur, getur hann skotið máli sínu til yfirskattanefndar og síðan atvmrh. og fengið leiðréttingar.