23.07.1931
Neðri deild: 10. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 156 í C-deild Alþingistíðinda. (2212)

63. mál, útsvör

Magnús Guðmundsson:

Ég ætla aðeins að benda á það, að ef þetta frv. yrði samþ., gildir það sem lög fyrir allt landið, og ég hefi ekki talað með tilliti til Reykjavíkur einnar, heldur landsins alls, en að Rvík sé einhver sérstök undantekning, það skil ég ekki. Ég sagði það, sem ég sagði, með tilliti til þess, að ef bændur eiga jarðir í tveimur hreppum, þá eiga þeir að greiða útsvar í báðum hreppunum, og það held ég, að mælist ekki vel fyrir.

Annars vil ég benda hv. flm. á það, að nú er hér á leiðinni annað frv., sem mun lækna skattflóttann héðan úr Reykjavík, ef hann annars á sér stað, sem ég held ekki, og það frv. gengur áreiðanlega í gegn, svo að frekari ráðstafana þarf ekki gagnvart Rvík.

Ennfremur vil ég vekja athygli á því, að það er ekki sama, hvort eigandi notar eign sína sjálfur eða leigir hana, eins og mér virtist hv. flm. gefa í skyn. Með því að leigja hana losnar hann sjálfur við útsvar, en í hans stað geldur leigutaki það. Það gengur í gegnum útsvarslöggjöfina sem rauður þráður, að greinilegur munur er gerður á því, hvort eigandinn notar eign sína eða leigir hana.